Úkraínskur sóknarmaður til Keflavíkur
Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur samið við Robert Gegedosh en hann er þrítugur sóknarmaður og hefur verið við æfingar hjá liðinu undanfarið.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, aðalþjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir að Gegedosh hafi fengið góða umsögn hjá löndum sínum Oleksii Kovtun, núverandi leikmanni Keflavíkur, og Ivan Kaliuzhnyi, sem lék með Keflavík á síðasta tímabili.
„Þetta er góður leikmaður og hefur verið að æfa með okkur síðustu daga. Hann þarf smá leikæfingu en tímabilinu hjá honum lauk í apríl. Robert spilaði í næstefstu deild í Úkraínu þar sem hann skoraði sextán mörk í 47 leikjum,“ segir Sigurður Ragnar. „Við erum bara að kynnast honum en mér sýnist hann passa vel inn í hópinn.“
Aðspurður segir Sigurður að verið sé að skoða fleiri kosti og annar spennandi leikmaður komi til reynslu á næstunni.
„Vörnin hjá okkur var góð í upphafi tímabils en við áttum í vandræðum með sóknarleikinn. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá okkur og við misstum þá Nacho [Heras] og Sami [Kamel] úr liðinu, burðarpósta í vörn og sókn. Nú hefur dæmið eiginlega snúist við, sóknarleikurinn farinn að ganga betur eftir að Sami kom inn en vandræði í vörninni – þetta er púsluspil.“
Það hefur mátt greina mikla bætingu í sóknarleik Keflvíkinga eftir að Kamel kom úr meiðslum.
„Já, hann er mjög góður og gerir leikmennina í kringum sig betri. Nú bíðum við eftir að Nacho verði tilbúinn en hann er byrjaður að taka þátt í flestum æfingum með okkur svo það styttist í það.“
Víkurfréttir greindu frá því að markvörðurinn Rúnar Gissurarson hafi gengið til liðs við Þrótt Vogum í vikunni en Sigurður sagði að lokum að einhverjir leikmenn gætu verið á förum frá Keflavík í önnur lið til að fá meiri spilatíma en það ætti eftir að koma í ljós.