Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tvöfaldur Norðurlandameistari
Laugardagur 22. desember 2012 kl. 15:11

Tvöfaldur Norðurlandameistari

Íris Ósk Hilmarsdóttir sundkona úr ÍRB er nýbakaður Norðurlandameistari í 200 metra baksundi og tjáði hún blaðamanni Víkurfrétta að sú tilfinning væri einstaklega góð, en Norðurlandamótið fór fram í Vaasa í Finnlandi á dögunum. Þessa sigurtilfinningu þekkir Íris ágætlega en hún varð einnig Norðurlandameistari síðastliðið sumar í Danmörku í sömu grein en núna bætti hún tíma sinn töluvert og sló eigið Íslandsmet telpna.

Íris er 14 ára og hefur verið í lauginni síðan hún var þriggja ára gömul. Eins og margir þekkja þá eru jafnan miklar og stífar æfingar sem fylgja sundiðkun og stundum þarf að færa töluverðar fórnir. Íris þurfti m.a. að fresta fjórum jólaprófum en kennarar og stjórnendur skólanna í Reykjanesbæ sýna keppendum mikinn skilning. Íris var aðeins ein níu keppenda frá ÍRB á mótinu en félagið átti lang flesta fulltrúa í landsliðinu. Íris var ekki ein ÍRB liða sem nældi sér í verðlaun á mótinu en Ólöf Edda Eðvarðsdóttir vann til bronsverðlauna í 400 metra fjórsundi annað árið í röð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áður æfði Íris einnig fótbolta og síðan þurfti hún að velja á milli íþróttagreina. Hún segir að áhuginn á sundinu hafi verið ívið meiri þar sem hún var nokkuð góð þar og verðlaunin voru byrjuð að hrannast inn. Núna hefur hún ekki tölu á verðlaunapeningunum sem hún á og bikararnir eru ófáir og fylla hillurnar í herberginu hennar.

Í framtíðinni er draumurinn að komast á Ólympíuleika og þá sérstaklega á þá næstu sem haldnir verða í Ríó árið 2016. Það er stefnan hjá nokkrum félögum hennar í ÍRB en Íris segir mikinn metnað vera hjá félaginu og stefnan ávallt sett á toppinn. Nú er hins vegar langþráð jólafrí framundan, en fyrst verður jú að klára prófin.