Tvöfaldur heimsmeistaratitill til Keflvíkings
Keflvíkingurinn Jóhanna Margrét Snorradóttir sem er í Hestamannfélaginu Mána í Keflavík, gerði frábæra hluti á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem lauk í dag í Hollandi. Jóhanna gerði sér lítið fyrir og vann tvöfaldan sigur en hún keppti í fjórgangi V1 og tölti T1. Ekki nóg með að Jóhanna sé keflvísk, heldur er hesturinn sem hún keppti á, Bárður frá Melabergi ræktaður af Mánafélaga.
Fyrri titillinn var fjórgangstitillinn en þau verðlaun hlýtur það par sem fær hæstu einkunn samanlagt í fjórgangi og tölti eftir forkeppni.
Í fjórgangi V1 enduðu þau í 2.sæti með einkunnina 8.00, voru grátlega nálægt því að sigra en einungis munaði 0.03 á einkunnum í 1. og 2.sæti.
Seinni titillinn kom í hús í síðustu grein mótsins sem voru úrslit í tölti T1.
Þar komu þau efst inn og það náði enginn að skáka þeim af þeim stalli og enduðu þau sem verðskuldaðir heimsmeistarar með einkunnina 8.94.
Jóhanna Margrét lyfti hinu fræga Tölthorni en þetta er í 14.sinn sem Ísland vinnur þessi verðlaun.