Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tvö víti í súginn í Krikanum
Þriðjudagur 6. júní 2006 kl. 11:53

Tvö víti í súginn í Krikanum

Íslandsmeistarar FH í knattspyrnu voru heldur betur heppnir í gærkvöldi er þeir tóku á móti sprækum Keflvíkingum í Kaplakrikanum. Leikurinn var hin ágætasta skemmtun en leikmenn buðu upp á þrjú mörk, þar af tvö sjálfsmörk og tvær vítaspyrnur.

Leikurinn byrjaði ágætlega og leikmenn beggja liða náðu að halda boltanum vel og náðu upp góðu spili þrátt fyrir að völlurinn væri blautur. FH-ingar skoruðu svo mark á 18. mínútu þegar Sigurvin Ólafsson gaf boltann fyrir markið en knötturinn hitti þar fyrir Jónas Guðna Sævarsson sem stóð við vítateiginn. Hann ætlaði að spyrna knettinum frá hættusvæðinu en það vildi ekki betur en svo að spyrnan misfórst eitthvað og boltinn sveif í fallegum boga og datt í markhornið, yfir Ómar í marki Keflvíkinga. Keflvíkingar fengu svo gullið tækifæri til þess að jafna leikinn er þeim var dæmd vítaspyrna eftir að boltinn hafði farið í hönd FH-ings innan vítateigs. Fyrirliðinn, Guðmundur Steinarsson, tók spyrnuna en hún var arfaslök og Daði Lárusson í marki FH varði auðveldlega.

Eftir jafnan fyrri hálfleik byrjuðu FH-ingar betur í seinni hálfleik og áttu nokkur hættuleg færi sem Ólafur Páll Snorrason og Atli Viðar Björnsson voru arkitektar að. Á 58. mínútu var það svo Atli Viðar sem náði að koma boltanum í mark Keflvíkinga þegar hann skóflaði boltanum framhjá tveimur varnarmönnum og Ómari í markinu, staðan 2-0 fyrir FH. Þá tóku Keflvíkingar leikinn í sínar hendur og réðu leiknum. Þegar um tuttugu mínútur lifðu af leiknum kom fyrirgjöf frá vinstri hjá Keflvíkingum, sóknarmaður þeirra náði að fleyta boltanum aftur fyrir sig en þar var enginn Keflvíkingur heldur Freyr Bjarnason, varnarmaður FH. Í stað þess að láta boltann fara ætlaði hann að hreinsa frá marki en hitti boltann ekki betur en svo að hann skoraði í eigið mark og staðan því orðin 2-1. Keflvíkingar sóttu mikið eftir það og á 93. mínútu fengu þeir vítaspyrnu sem þótti umdeild og var það Þórarinn Kristjánsson sem tók spyrnuna og freistaði þess að tryggja Keflavík annað stigið. Spyrnan var slök og Daði varði frá Þórarni, sína aðra vítaspyrnu í leiknum og FH-ingar stigu stríðsdans og fögnuðu stigunum þremur sem fengust með heppni.

FH-ingar eru nú ósigraðir eftir fimm umferðir í deildinni og eru með sex stiga forskot á næstu lið Keflavík er í 5. sæti deildarinnar.

Sagt eftir leikinn:

Guðmundur Viðar Mete:

Hvernig fannst þér leikurinn spilast?
Mér fannst við eiga leikinn og áttum hiklaust að vinna, við erum að ráða miðjunni lengi vel og erum bara bölvaðir klaufar að ná ekki stigunum þremur úr þessum leik.

Dagsskipunin hefur sem sagt verið þrjú stig og ekkert annað?
Já, við förum í hvern einasta leik til þess að vinna hann, sama við hverja við spilum.

Þið hafið verið að leika nokkuð vel í upphafi móts, ertu sáttur með spilamennskuna?
Vandamálið hefur ekki verið spilamennskan því við erum oft á tíðum að spila góðan fótbolta, heppnin hefur ekki verið með okkur og sjö stig úr fyrstu fimm leikjunum er ekki nándar nógu gott.

Hvernig er með framhaldið, ertu bjartsýnn?
Já ég er mjög bjartsýnn, við eigum reyndar erfiðan leik næst(innsk.blaðamanns ÍA) en allir leikir eru erfiðir í þessari deild. Ef við spilum eins og við höfum verið að spila þá eigum við að fara að detta niður á sigra.


Rúnar Arnarson, formaður Knattsp.deildar Keflavíkur

Hvernig leist þér á leikinn?
Þetta var grátlegt að misnota tvö víti í þessum leik, það hefði verið ljúft að ná sigri hér í kvöld. Annars leist mér bara mjög vel á leikinn, ég var mjög sáttur við strákana og við áttum að fá þrjú stig út úr þessum leik, þetta var grátlegt.

Hvernig fannst þér leikurinn annars spilast?
Þetta var nokkuð jafnt, völlurinn var nokkuð háll en mér fannst liðin ná að leika boltanum vel á milli sín. Ég held að þetta hafi verið með því besta sem við höfum séð í deildinni í sumar, liðin voru að leika flottan bolta og ég held að þetta séu bestu liðin í dag.

Þetta er mjög ungt lið sem Keflavík teflir fram, er framtíðin björt í Bítlabænum?
Já, við erum með mjög ungt lið og það er á uppleið. Við erum að bæta okkur í hverjum leik svo framtíðin er björt í Keflavík. Ef við höldum svona áfram að þá verðum við í góðri stöðu í haust. Við ætlum okkur að vera í toppbaráttunni og fylgja í humátt á eftir FH.

Hvernig er svo framhaldið hjá Keflavík?
Það er skemmtilegt framundan hjá okkur, Evrópukeppnin er að fara af stað og við eigum leik heima 17. júní gegn Dungannon frá N-Írlandi og viku síðar spilum við úti.

Nú er Keflavík að spila góðan bolta, er ánægja með störf Kristjáns þjálfara?
Já, það er mikil ánægja með störf Kristjáns, hann er að gera fína hluti með liðið. Liðið er að verða betra með hverjum leiknum og við eigum eftir að hirða fullt af stigum í sumar svo það er bjart framundan.

VF-mynd/Hans: Daði ver vítið frá Þórarni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024