Tvö víti forgörðum í fjörugu jafntefli
Keflvíkingar klúðruðu víti og misstu mann af velli
Það er ekki hægt að segja annað en áhorfendur hafi fengið peninga sinna virði á Nettóvellinum í kvöld þegar Keflvíkingar og Fylkismenn mættust í 4. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Lokatölur leiksins urðu 2-2 þar sem bæði lið misnotuðu vítaspyrnu. Auk þess var Andra Fannari Freyssyni bakverði Keflvíkinga vikið af velli í fyrri hálfleik.
Keflvíkingar komust yfir þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum en þar var á ferðinni Arnór Ingvi Traustason. Hann skoraði af harðfylgi eftir undirbúning Magnúsar Þórir Matthíassonar.
Keflvíkingar urðu fyrir áfalli þegar bakverðinum Andra Fannari Freyssyni var vikið af velli skömmu áður en flautað var til hálfleiks. Andri virtist tækla boltann þegar Tryggvi Guðmundsson var við það að sleppa inn fyrir en dómari leiksins var á öðru máli. Fylkismenn fengu vítaspyrnu og Andri Fannar fékk að líta rauða spjaldið. Davis Preece markvörður Keflvíkinga gerði sér lítið fyrir og varði spyrnu Viðars Arnar Kjartanssonar. Fín spyrna en afbragðs markvarsla.
Í upphafi seinni hálfleiks var alls ekki að sjá að Keflvíkingar væru manni færri. Þeir blésu til sóknar og uppskáru víti eftir hornspyrnu. Jóhann Birnir setti boltann á punktinn en Bjarni Þórður markvörður Fylkis varði fremur laust skot Jóhanns.
Þegar svo rúmlega hálftími lifði leiks tókst Tryggva Guðmundssyni að jafna metin fyrir gestina. Hann náði þá að fylgja eftir skoti sem David Preece varði vel. 1-1 og enn tími fyrir fleiri mörk.
Leikurinn var fjörugur og Keflvíkingar áttu færin sem hefði getað fært þeim forystuna. Jóhann Birnir átti m.a. aukaspyrnu sem hafnaði í þverslánni hjá Fylkismönnum. Að lokum fór það svo að Keflvíkingar skoruðu en þar var á ferðinni Hörður Sveinsson sem nýlega hafði þá komið inn á sem varamaður. Hörður var réttur maður á réttum stað eftir að Arnór Ingvi Traustason átti skot sem hafnaði í stöng og barst fyrir fætur Harðar.
Sæluvíman var Keflvíkingum skammvinn en þegar innan við 10 mínútur voru til leiksloka jöfnuðu gestirnir metin. Þar var á ferðinni Ágeir Eyþórsson. Leiknum lauk því með 2-2 jafntefli en mörkin í leiknum hefði hæglega getað orðið fleiri.
Keli Keflvíkingur var hress með gang mála framan af leik.