Tvö mörk í uppbótartíma tryggðu eitt stig gegn Haukum
Grindavík skoraði tvö mörk í uppbótartíma gegn botnliði Hauka og tryggði sér eitt stig í Pepsideild kvenna sem voru nokkur vonbrigði því Grindavík sundurspilaði Hauka á köflum en misnotaði ein sex dauðafæri. Þar sem FH vann Breiðablik afar óvænt er Grindavík í bullandi fallbaráttu og mætir Val og Fylki í tveimur síðustu umferðunum sem er ekki auðvelt verkefni.
Haukar lék undan strekkingsvindi í fyrri hálfleik og náðu forystu með markskoti lengst utan af velli skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik var einstefna að marki Hauka og Grindavík óð í færum, sérstaklega framherjinn Shaneka Gordon sem var algjörlega fyrirmuna að skora lengst af. Í staðinn bættu Haukar við öðru marki, aftur með skoti af löngu færi. En Grindavíkurstelpum til hróss verður að benda á að þær gáfust aldrei upp. Gordon minnkaði muninn með skallamarki þegar klukkan sló 90 mínútur og aðeins mínútu seinna jafnaði Sara McFadden metin. Úrslitin 2-2 en Grindavík hefði sannarlega þurft á öllum þremur stigunum að halda.
Af www.grindavik.is