Tvö Íslandsmet í sundi í Vatnaveröld í dag
Sparisjóðsmót ÍRB fór af stað með miklum hvelli í dag. Sérstakt metamót var sett inní dagskrá hjá keppendum 8 ára og yngri sem hófu leikinn í dag. Mótið er til þess gert að eldri sundmenn sýni krafta sína og þol og skapi jákvæða fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina. Tvær greinar voru syntar, 50m bringusund karla og kvenna. Skemmst er frá því að segja að sundparið og Ólympíufarar ÍRB settu bæði ný glæsileg íslandsmet. Erla Dögg Haraldsdóttir synti 50m bringusund á 31,61 sem er bæting á meti Hrafnhildar Lúthersdóttir síðan í nóvember 2008 um 6/10 úr sek. Því næst synti Árni Már Árnason og setti einnig íslandsmet, synti 50m bringusund á 27,52. Þar bætti hann met Jakobs Jóhanns Sveinsonar síðan í nóvember 2008 um rúmlega 3/10 úr sekúndu. Mótið er gríðarlega fjölmennt eða um 500 keppendur frá 14 félögum, keppt er í fimm hlutum og er mikil og góð stemming á mótinu. Eurovision lög hljóma á bakknum og yndisleg veðurblíða er í Reykjnesbæ.