Tvíburar léku sem bakverðir hjá Keflavík
Patrekur Örn og Arnór Smári gætu orðið framtíðarbakvarðapar Keflvíkinga
Það vakti athygli í leik Keflavíkur gegn ÍA í Lengjubikarnum um síðustu helgi að ungir tvíburar úr Keflavík léku sem bakverðir liðsins. Arnór Smári og Patrekur Örn Friðrikssynir skiptu með sér bakvarðastöðunum og þeir sögðust í spjalli við VF að þetta hafi verið skemmtilegt og sjái þetta sem góðan möguleika í framtíðinni.
Þeir Arnór Smári og Patrekur Örn þykja mjög efnilegir og eru samkvæmt heimildum Víkurfrétta tveir af nokkrum framtíðar leikmönnum Keflavíkur. Það eru fleiri en þeir sem hafa komið sterkir inn í vetur. Einn þeirra, Leonard Sigurðsson, gæti minnkað framlínuáhyggjur stuðningsmanna liðsins því hann hefur skorað mörg mörk í vetur og mun nokkuð örugglega fá tækifæri í fremstu víglínu liðsins í sumar.
„Það eru nokkrir ungir á kantinum og munu fá að spreyta sig í sumar en þetta er alltaf spurningin hvenær rétti tíminn er fyrir þá. Foreldrarnir eru oft á öðru máli en við þjálfararnir,“ sagði Kristján Guðmundsson í stuttu spjalli við VF á æfingu Keflavíkurliðsins í gær en liðið hefur undirbúið sig af kappi í vetur og er á leið í æfingaferð á næstunni.
Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson mætti á æfingu hjá liðinu en hann var á leiðinni með 21 árs landsliði Íslands til Rúmeníu.
Síðasti leikur liðsins í Lengjubikarnum verður á laugardag gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar.
Samúel Kári Friðjónsson var með á æfingu hjá Keflavík rétt áður en hann hélt utan með 21 árs landsliði Íslands til Rúmeníu.
Það var vel tekið á því á æfingu hjá Keflavík í Reykjaneshöllinni. VF-myndir/pket.