Tveir sundmenn ÍRB á NMU
Tveir sundmenn ÍRB náðu á ÍM25 lágmörkum fyrir Norðurlandameistaramót unglinga sem fram fer í Tampere í Finnlandi. Það voru þeir kappar Guðni Emilsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson. Davíð keppir í 50, 100 og 200m baksundi og Guðni keppir í 50, 100 og 200m bringusundi, 50m skriðsundi og 200m fjórsundi. Stefna þeir félagar á góðan árangur á mótinu, en Guðni varð í 4. sæti í 200m bringusundi á sama móti í fyrra. Með þeim í för verða þeir félagar úr ÍRB og landsliðsnefndarmenn SSÍ, Haraldur Hreggviðsson, sem fer sem dómari, og Jón Kr. Magnússon sem fer sem fararstjóri.
Þeir félagar voru ekki þeir einu í hópi ÍRB sem gerðu góða hluti því Erla Dögg Haraldsdóttir náði afar góðum árangri í 200m fjórsundi, 2.16,94, sem skipar henni í 28. sæti á Afrekaskrá Evrópskra sundmanna á tímabilinu. Jafnframt skipar þessi árangur henni í 5. sæti af sundkonum af Norðurlöndunum. Af þessum tölum er ljóst að Erla Dögg er að nálgast það að vera í fremstu röð evrópskra sundkvenna í dag.