Tveir reknir úr húsi í Grindavíkursigri
Jonathan Griffin lék eins og sá sem valdið hefur á lokasprettinum í kvöld þegar Grindvíkingar lönduðu mikilvægum sigri á baráttuglöðum Tindastólsmönnum í Iceland Express deild karla. Lokatölur leiksins voru 109-99 Grindavík í vil en þeir gulu sigldu fram úr á síðustu þremur mínútum leiksins. Með sigrinum eru Grindvíkingar komnir upp að hlið Keflavíkur með 20 stig en Tindastólsmenn geta prísað sig sæla með að Hamar/Selfoss og ÍR töpuðu í kvöld og því eru þessi þrjú lið enn öll með 12 stig og berjast hart um sæti í úrslitakeppninni. Tveimur leikmönnum var vísað úr húsi í kvöld en þeir Davíð Páll Hermannsson, Grindavík, og Helgi Viggósson, Tindastól, börðust af aðeins of mikill ákefð og kaus Einar Skarphéðinsson, annar dómara leiksins, að senda piltana í sturtu.
Páll Axel Vilbergsson hélt sínum mönnum við efnið og setti niður þrjá þrista í fyrsta leikhluta og kom sá þriðji Grindavík í 15-13. Leikurinn var hraður og áttu Tindastólsmenn oft í vandræðum með hraðaupphlaup heimamanna. Ísak Einarsson fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta og fékk fyrir vikið smá hvíld hjá Kristni Friðrikssyni þjálfara Stólann. Gunnlaugur Erlendsson kom með góða baráttu fyrir Tindastól af bekknum kom gestunum í 26-27 með þriggja stiga körfu en fínn lokasprettur Grindavíkur í fyrsta leikhluta breytti stöðunni í 35-27 í lok leikhlutans og varnarleikur beggja liða fjarri því að vera góður en sóknirnar þeim mun litríkari.
Lamar Karim gerði sjö fyrstu Stólastigin í 2. leikhluta og minnkaði muninn í 37-34 og skömmu síðar fékk Gunnlaugur Erlendsson sína þriðju villu hjá gestunum. Grindvíkingar beittu annað veifið pressuvörn sem skilaði ekki miklu en náðu þó að hægja lítið eitt á gestunum. Einnig fóru þeir tímabundið í 2-3 svæðisvörn og þá hittu Tindastólsmenn þokkalega úr skotum sínum en hefðu mátt nýta þau betur. Þegar um fjórar mínútur voru til hálfleiks voru þeir Davíð Páll og Helgi í baráttu um frákast, félagarnir höfnuðu í gólfinu og fór það ekki á milli mála að strákarnir slógu í átti til hvors annars og því hárrétt hjá Einari að senda strákana í bað enda eiga slagsmál ekkert erindi inn á parketið. Grindvíkingar voru enn skrefinu á undan gestum sínum þegar flautað var til hálfleiks og staðan þá 57-54 í hnífjöfnum leik.
Lamar Karim var kominn með 17 stig fyrir Tindastól í hálfleik en Páll Axel var með 13 stig hjá Grindavík.
Tindastóll hóf síðari hálfleikinn með glæsibrag og komust í 63-69 þar sem Lamar deildi boltanum vel á liðsfélaga sína og gerðu gestirnir oft nokkrar auðveldar körfur en eins og fyrr segir voru varnir beggja liða hriplekar. Þegar skammt var til loka þriðja leikhluta komust Grindvíkingar aftur yfir 75-74 en Tindastóll náði að nýju yfirhöndinni og héldu liðin inn í síðasta leikhlutann í stöðunni 78-79 fyrir Tindastól.
Snemma í fjórða leikhluta fengu þeir Gunnlaugur og Lamar sínar fjórðu villu og fóru sér varlega og þá gat Calvin Clemmons leikið lausum hala í teig Tindastóls og gerði oft auðveldar körfur. Þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan 95-95 en þegar hér var við sögu komið varð kúvending á leiknum. Fram að þessum tímapunkti hafði leikurinn verið hraður og spennandi. Tindastólsmenn kvörtuðu sáran undan dómgæslunni og fannst verulega á sig hallað en á meðan gengu Grindvíkingar á lagið og Jonathan Griffin setti niður þriggja stiga körfu sem breytti stöðunni í 98-95 og lék hann í alla staði vel fyrir Grindavík undir lokin. Skömmu síðar gerði Þorleifur Ólafsson aðra þriggja stiga körfu fyrir Grindavík og staðan orðin 102-97 en Griffin rak síðasta naglann í líkkistu Tindastóls er hann setti niður þrist og staðan orðin 105-97. Tíminn var of naumur fyrir Tindastól til þess að ná að jafna metin og fóru Grindvíkingar að lokum með 10 stiga sigur af hólmi 109-99.
Óhætt er að segja að þetta hafi verið ein besta frammistaða Stólanna á Suðurnesjum í vetur og eru þeir í mikilli baráttu um að komast inn í úrslitakeppnina. Grindvíkingar jöfnuðu Keflavík að stigum og nú hafa bæði lið 20 stig í 5.-6. sæti deildarinnar en Keflavík á leik til góða annað kvöld gegn Njarðvíkingum.
Gangur leiksins
7-4,23-20,35-27
39-34,49-47,57-54
63-69,78-74,78-79
84-83,95-95,109-99