Tveir nýliðar úr Keflavík valdir í landsliðið
Framundan er landsleikjagluggi hjá landsliði kvenna í körfuknattleik og hefur Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðsins, valið liðið sitt og þá leikmenn sem leika í landsliðsglugganum en hann er liður í undankeppni EM, EuroBasket Women’s 2021.
Þær Katla Rún Garðarsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir frá Keflavík eru báðar valdar í liðið en þær eru nýliðar inn í landsliðið. Katla Rún er í leikmannahópnum en Anna er valin sem þrettándi leikmaður liðsins og mun hún æfa og ferðast með landsliðinu og vera til taks ef gera þarf breytingar á liðinu meðan á verkefninu stendur.
Leikirnir fara fram í landsliðsglugga FIBA dagana 8.–15. nóvember og verða leiknir á Grikklandi, í Heraklion á eyjunni Krít í öruggri „kúlu“ sem FIBA setur upp fyrir öll liðin í A-riðli undankeppninnar. Farið verður eftir ströngum reglum innan hennar með sóttvarnir. Leikirnir í undankeppninni hjá öllum liðum í nóvember áttu að vera heima og að heiman en hefur nú verið breytt fyrir alla riðla í einangraða leikstaði, líkt og NBA-deildin vestanhafs gerði á Florída nú í haust. Íslenska liðið heldur utan 7. nóvember til Grikklands til æfinga en leikdagar liðsins verða 12. og 14. nóvember.
Eftirtaldir leikmenn skipa hópinn:
Bríet Sif Hinriksdóttir, Haukar (2)
Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Valur (4)
Eva Margrét Kristjánsdóttir, Haukar (nýliði)
Guðbjörg Sverrisdóttir, Valur (20)
Hallveig Jónsdóttir, Valur (21)
Hildur Björg Kjartansdóttir, Valur (32)
Isabella Ósk Sigurðardóttir, Breiðablik (4)
Katla Rún Garðarsdóttir, Keflavík (nýliði)
Lovísa Björt Henningsdóttir, Haukar (2)
Sara Rún Hinriksdóttir, Leicester, England (19)
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Skallagrímur (53)
Þóra Kristín Jónsdóttir, Haukar (17)
Anna Ingunn Svansdóttir, Keflavík (nýliði)