Tveir Keflvíkingar með verðlaun á Evrópumóti
Bartosz Wiktorowicz fékk einnig brons.
Það er heldur betur uppskera hjá taekwondo deild Keflavíkur en á innan við viku þá höfðu tveir Keflvíkingar fengið verðlaun á Evrópumóti í taekwondo. Bartosz Wiktorowicz og Ágúst Kristinn Eðvarðsson fengu báðir bronsverðlaun í viðkomandi keppnisgrein.
Bartosz keppti í hópapoomsae ásamt tveimur öðrum drengum frá taekwondo deild Ármanns. Hópapoomsae er grein þar sem iðkendur þurfa að samhæfa bardagahreyfingar innan liðsins og framkvæma með sem mestri nákvæmni, hraða, kraft, liðleika og takt. Þar tókst drengjunum þremur að verða í 3. sæti og fengu bronsverðlaun fyrir. Það voru fyrstu verðlaun hjá Íslending á Evrópumóti í tækni en mótið var haldið í Serbíu. Á sama móti varð bartosz í 5-8. sæti í einstaklingstækni og Ástrós Brynjarsdóttir varð í 9. sæti í einstaklingstækni. Bartosz var valinn keppandi ársins hjá taekwondo deild Keflavíkur í vor eftir frábært ár og hann stóðst einnig svartbeltispróf í byrjun sumars.
Ágúst Kristinn Eðvarðsson keppti í -33kg flokki í bardaga unglinga á Evrópumótinu í Frakklandi. Hann stóð sig þar með stakri prýði en hann fékk eingöngu á sig eitt stig í þremur bardögum sem hann keppti en skoraði 25. Ágúst barðist gífurlega vel og var hársbreidd frá því að komast í úrslit. Ágúst sigraði keppanda frá Lúxemborg og Finnlandi með miklu öryggi og barðist gífurlega vel á móti Spænskum keppanda en sá bardagi endaði 0-0 þar sem Spánverjanum var dæmdur sigur eftir bráðabana. Þar með varð Ágúst í 3. sæti og fyrstu keppandi Íslands til að ná verðlaunum á Evrópumóti í bardaga. Á sama móti kepptu einnig Keflvíkingarnir Daníel Arnar Ragnarsson og Daníel Aagard-Nilesen Egilsson en þeim tókst ekki að komast áfram.
Á þessari viku eignuðust Íslendingar semsagt tvenn bronsverðlaun á Evrópumóti í sitthvorri keppnisgrein taekwondo.
Það segir sitt um gæði og styrkt taekwondodeildarinnar sem hefur verið ósigrandi á Íslandi síðustu ár, var stærstur hluti Norðurlandameistara Íslendinga í fyrra sem og á Opna Skoska meistaramótinu en er núna eina félagið á Íslandi sem eiga verðlaun á Evrópumóti í báðum greinum taekwondo og eina félagið sem eiga verðlauna hafa í bardaga.