Tveggja marka sigur Grindavíkur í Keflavík
- viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir leik
Grindavík sigraði nágranna sína úr Keflavík 0-2 á Nettóvellinum í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í rigningu og léttri golu.
Keflvíkingar gerðu breytingu á byrjunarliði sínum frá síðasta leik en Einar Orri Einarsson kom inn á fyrir Ingimund Aron Guðnason. Þá gerði Grindavík tvær breytingar á sínu liði en þeir Aron Jóhannsson og Marínó Axel Helgason komu inn á fyrir Matthías Örn Friðriksson og Nemanja Latinovic.
Fyrri hálfleikur var afar rólegur en bæði lið náðu að skapa sér nokkur færi sem lítið varð úr. Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur fékk að líta gula spjaldið á 45. mínútu eftir að hafa rifið í Jeppe Hansen. Leikar stóðu jafnir 0-0 í hálfleik. Einar Orri Einarsson fékk gult spjald á 56. mínútu leiksins, á 57. mínútu dró til tíðinda þegar Grindvíkingar komust yfir 0-1 með skallamarki frá Björn Berg Bryde eftir aukaspyrnu frá Gunnari Þorsteinssyni. Grindavík var ekki lengi að bæta öðru marki sínu við Sam Hewson fékk sendingu út fyrir vítateig Keflavíkur á 62. mínútu og setti boltann í netið, staðan því orðin 0-2 fyrir gestina.
Keflavík gerði tvöfalda skiptingu á liði sínu á 64. mínútu þegar Aron Freyr Róbertsson og Sigurbergur Elísson komu inn á fyrir þá Frans Elvarson og Juraj Grizelj. Sindri Þór Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur fékk gult spjald á 72. mínútu, þá fékk Marc McAusland, fyrirliði Keflavíkur gult spjald á 72. mínútu. Á 75. mínútu gerði Grindavík breytingu á liði sínu og Matthías Örn Friðriksson kom inn á fyrir Will Daniels og Leonard Sigurðsson, leikmaður Keflavíkur kom inn á fyrir Sindra Þór Guðmundsson, leikmann Keflavíkur á 79. mínútu.
Á 85. mínútu kom Nemanja Latinovic inn á fyrir René Joensen í liði Grindavíkur og Matthías Örn Friðriksson fékk gult spjald á 90. mínútu. Heimamenn komust í færi þegar Einar Orri Einarsson skallaði rétt yfir mark Grindavíkur á lokamínútum leiksins. Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og endaði leikurinn með 0-2 sigri gestanna úr Grindavík.
Mörk leiksins:
0-1 Björn Berg Bryde ('57)
0-2 Sam Hewson ('62)
Hér að neðan má sjá myndskeið af fyrsta markinu og síðan viðtöl við þjálfara og leikmenn eftir leik.