Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Trúi því að ég geti verið öðrum íþróttastelpum góð fyrirmynd“
Sunnudagur 21. janúar 2018 kl. 05:00

„Trúi því að ég geti verið öðrum íþróttastelpum góð fyrirmynd“

-Jóhanna Júlía Júlíusdóttir er Íslandsmeistari í CrossFit og stefnir á Heimsleikana

„Þetta var klárlega mitt besta ár síðan ég byrjaði í CrossFit,“ segir Jóhanna Júlía Júlíusdóttir þegar hún rifjar upp síðastliðið ár í samtali við Víkurfréttir, en Jóhanna varð meðal annars Íslandsmeistari í CrossFit árið 2017.

„Ég get ekki annað sagt en að ég sé mjög ánægð með árið í heild sinni. Það sem mér fannst standa upp úr var að komast á Heimsleikana í ágúst. Ég var hluti af sex manna liði CrossFit XY á Evrópuleikunum þar sem við settum allt kapp á að vinna okkur inn þátttökurétt á Heimsleikunum.“ Aðeins fjörtíu bestu liðin í heiminum af fjórtán þúsund komust á leikana. „Það tókst og við enduðum í þriðja sæti á Evrópuleikunum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Liðið á verðlaunapallinum á Evrópumótinu.

Góður stuðningur munar öllu
Jóhanna ákvað fyrir rúmu ári síðan að byrja að æfa CrossFit hjá CrossFit XY í Garðabæ en áður hafði hún æft hjá CrossFit Suðurnes. „Ég gerði það bara fyrir mig vegna þess að mér fannst ég hafa fleiri tækifæri til þess að ná langt þar. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun þar sem ég hef gert svo margt síðan þá, farið í fjölda æfingabúða, bæði hérlendis og erlendis. Það munar öllu að hafa góðan stuðning í kringum sig.“


Jóhanna Júlía er Íslandsmeistari í CrossFit.

Íslendingarnir eru öflugir
Íslandsmeistaramótið sem Jóhanna sigraði fór fram í nóvember síðastliðnum en hún segir það ekkert gefins að vinna svoleiðis mót. „Stelpurnar og strákarnir á Íslandi eru svo öflug, maður þarf að hafa fyrir hlutunum. Markmið mitt fyrir mótið var alltaf að vinna en það var aldrei öruggt. Það getur allt gerst í svona keppnum.“


Íþróttakonurnar Stefanía, Ragnheiður Sara og Jóhanna Júlía.

Utan íþróttarinnar stundar Jóhanna nám við Háskólann í Reykjavík en hún segir það oft mikið púsluspil að tvinna æfingum og náminu saman. „Maður þarf að fórna ýmsu til að ná öllu sínu. CrossFit fylgir mikið æfingaálag og íþróttin krefst þess að ég setji allan minn frítíma í að hvílast og ná að byggja upp gott orkustig fyrir næstu æfingu,“ segir Jóhanna.

Það er alltaf gaman að mæta á fjölbreyttu æfingarnar að hennar sögn, en sumir dagar eru þó erfiðari en aðrir. „Æfingarnar eru til dæmis lyftingar, þrekæfingar, fimleikar, sund, hjól, hlaup og fleira. Ég æfi CrossFit því ég hef trú á því að ég geti náð miklum árangri á þessum vettvangi og verið öðrum íþróttastelpum góð fyrirmynd.“

[email protected]