Trúi ekki öðru en að þessar rassskellingar veki okkur
-segir Guðmundur Jónsson leikmaður Keflavíkur
Þriðji leikurinn gegn Stjörnunni í Keflavík í kvöld.
„Ég held að það hafi enginn gert ráð fyrir því að við myndum lenda í svona vandræðum í fyrstu tveimur leikjunum gegn Stjörnunni. Mér dettur ekkert annað orð en vanmat í hug,“ sagði Keflvíkingurinn Guðmundur Jónsson en þriðji leikur Keflvíkinga og Stjörnunnar í Domino´s deildinni í körfubolta verður í TM höllinni í kvöld.
Stjörnumenn hafa unnið tvo fyrstu leikina sannfærandi og örugglega. Guðmundur segir að tapið í fyrsta leiknum hafi verið óvænt og köld vatnsgusa í andlit Keflvíkinga. Hugarfarið í upphitun í öðrum leiknum hafi verið gott en ekki skilað sér þegar í leikinn var komið. „Það var einhver helv… hræðsla um að staðan yrði slæm ef við töpuðum. Einbeitingin sem sagt úti á túni, fannst mér.“
Nú eru Keflvíkingar með bakið upp að vegg og verða að sigra í leiknum ætli þeir sér ekki að fljúga beint í sumarfríið.
Ekkert óraunhæft að vinna Stjörnuna þrisvar í röð
„Við höfum ekki náð að leika þann bolta sem við gerðum svo vel í vetur, höfum reyndar ekki gert það eftir nauma tapið fyrir KR á dögunum. Ég trúi ekki öðru en að þessar rassskellingar veki okkur. Við erum með mjög gott lið og þess vegna segi ég ískaldur að það sé ekkert óraunhæft að við vinnum Stjörnuna þrisvar í röð. En það þarf að byrja á því að vinna næsta leik. Það er fyrsti hluti í því stóra verkefni.“
Guðmundur hefur leikið vel með Keflavík í vetur. Smollið inn í liðið eins og innfæddur Keflvíkingur þótt hann hafi alið manninn hjá Njarðvík og eigi bróður í nágrannaliðinu.
„Það var pínu skrýtið fyrst að vera í Keflavíkurbúningi en mjög fljótt að venjast. Mér líður afar vel í Keflavík og mér hefur verið tekið mjög vel,“ en kappinn endurnýjaði samning við liðið nýlega.
Aðspurður um amerískan þjálfara liðsins segir Guðmundur að hann sé mjög ánægður með hans störf og hafi aldrei haft annan eins þjálfara. „Mér fannst ég hreinlega vera að byrja í körfubolta fyrst eftir að hann kom. Hann kom með nýjar víddir inn í boltann okkar.“