Tóta sagt upp hjá Aberdeen
Keflvíska markahróknum Þórarni Kristjánssyni hefur verið sagt up samningi sínum við skoska úrvalsdeildarliðið Aberdeen. Þetta kom fram á vefmiðlinum fotbolti.net.
Ferill Þórarins hjá liðinu hefur verið viðburðarlítill þar sem meiðsli hafa sett strik í reikninginn, en hann náði þó að sýna hvað í honum bjó í varaliðsleikjum, en náði aldrei að brjótast inn í aðalliðið.
Forráðamenn Aberdeen hafa staðið í miklum vorhreingerningum og var alls sjö leikmönnum sagt upp samningi og fjórir settir á sölulista.
Framhaldið er óljóst hjá Þórarni, en hérlendir fjölmiðlar hafa haft eftir umboðsmanni hans að lið í neðri deildum í Englandi hafi sýnt honum áhuga, sem og hollensk lið.