Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Töpuðu síðasta heimaleiknum
Snædís María Jörundsdóttir vinnur boltann af varnarmanni ÍBV en markvörður þeirra varði skotið hennar vel. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 26. september 2022 kl. 10:46

Töpuðu síðasta heimaleiknum

Keflavík tók á móti ÍBV í gær í síðasta heimaleik Keflvíkinga í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Fyrir leik var ljóst að sæti Keflavíkur var tryggt í Bestu deildinni þar sem Valur hafði þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og sent Aftureldingu niður í Lengjudeildina. Leikurinn varð aldrei rishár og hvorugt lið lagði sig sérstaklega fram en Eyjakonur voru aðeins beittari og tóku öll stigin með 2:1 sigri.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn, þó var ÍBV meira með boltann framan af en eftir ágætis kafla hjá Keflavík og var Snædís María Jörundsdóttir nærri því að koma Keflavík í forystu þegar hún pressaði varnarmann vel, vann boltann og átti fínt skot en markvörður Eyjakvenna varði vel. Skömmu síðar var berotið á Ana Paula Santos Silva við vítateig ÍBV og Keflavík fékk aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Aníta Lind Daníelsdóttir tók skotið sem fór yfir varnarvegginn og hafnaði í þverslánni og yfir.

ÍBV komst yfir eftir sóknarhrinu Keflvíkinga. Markið varð nánast til úr engu en einhver sofandaháttur virtist vera í vörn heimaliðsins og það nýttu Eyjakonur vel, gengu nánast í gegnum vörn Keflavíkur og skoruðu framhjá Samantha Murphy í markinu (40'). Keflvíkingar voru slegnir við að fá markið á sig og ÍBV lét kné fylgja kviði, aðeins mínútu síðar voru þær komnar aftur í sóknina og tvöfölduðu forystuna. Aftur var vörn Keflvíkinga værukær og Eyjakonur sóttu að vítateig, fengu nægan tíma fyrir skotið og aftur söng hann í netinu (41'). Keflavík tveimur mörkum undir í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Seinni hálfleik var eins og sá fyrri, bragðdaufur, en á 71. mínútu fengu Keflvíkingar sína fyrstu hornspyrnu í leiknum. Eftir mikinn atgang við mark Eyjakvenna í kjölfar hornspyrnunnar kom Silvia Leonessi boltanum á Anítu Lind sem skoraði og minnkaði muninn (72'). Lengra komst Keflavík ekki og tap því niðurstaðan.

Keflavík heldur sæti sínu í deildinni en situr í þriðja neðsta sæti með sextán stig. Keflvíkingar halda til Garðabæjar á laugardaginn og mæta Stjörnunni í síðustu umferð og geta, með hagstæðum úrslitum, haft sætaskipti við Þór/KA sem hefur sautján stig en lakara markahlutfall en Keflavík.

Í hálfleik voru leikmenn 4. flokks stúlkna heiðrarar en þær náðu frábærum árangri í sumar og A, B og C lið flokksins komust öll í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Þjálfarar þeirra eru Skúli Sigurðsson, Stefán Lynn Price og Daníel Örn Baldvinsson. 
Anna Arnarsdóttir og Alma Rós Magnúsdóttir, leikmenn 4. flokks, hafa báðar verið valdar í U15 landsliði Íslands.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum eins og má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - ÍBV (1:2) | Lengjudeild kvenna 25. september 2022