Toppurinn að sigra í Sláturhúsinu
Adam Eiður stimplaði sig inn gegn FSU með skotsýningu
Njarðvíkingurinn Adam Eiður Ásgeirsson stimplaði sig inn í Domino’s deildina í vikunni þegar hann skoraði 14 stig gegn liði FSU í stórsigri. Adam sem fagnar 18 ára afmæli sínu í sumar spilar ýmist sem bakvörður eða framherji á vængnum en hann er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki karla.
Hann segir það vera algjöra veislu að spila við hlið leikmanna eins og Loga Gunnars og Hauks Helga. „Það er ekki amalegt að fá að læra af þeim og þjálfurunum sem eru þaulreyndir. Logi kennir manni helling og það að horfa á Hauk Helga spila er algjör veisla,“ segir Adam. Hann segir að þjálfararnir séu duglegir að gefa ungu leikmönnunum sjálfstraust og þannig séu þeir öruggir þegar á völlinn er komið. „Þetta var ákveðinn léttir að eiga svona leik og stimpla sig aðeins inn,“ segir Adam sallarólegur.
Adam gerði sér lítið fyrir og setti niður 4 af 8 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og skoraði alls 14 stig á 17 mínútum. Adam er fremur hávaxinn en í föðurætt hans eru þeir nokkuð hávaxnir karlarnir sem gert hafa það gott með Njarðvík í körfuboltanum. Faðir hans Ásgeir og föðurbræðurnir Daníel og Hjörtur léku allir með liðinu hér áður fyrr.
Adam hefur bæði fengið að spreyta sig gegn KR á dögunum og í grannaslagnum gegn Keflavík fyrir skömmu. „Það er mikil upplifun en það er eiginlega fyrsti leikurinn sem ég spila af einhverju viti í meistaraflokki. Það var mikil reynsla. Það toppaði svo allt að vinna í Sláturhúsinu.“ Eftir áramót í fyrra fékk Adam að æfa með meistaraflokki og segir það hafa verið magnaða reynslu að fá að sitja á bekknum í úrslitakeppninni í fyrra þar sem Njarðvíkingar voru hársbreidd frá því að leika til úrslita.
Tveir aðrir jafnaldrar Adams hafa verið að spila með liðinu og staðið sig vel, en það eru þeir Jón Arnór Sverrisson og Snjólfur Marel Stefánsson sem einmitt tók 10 fráköst í umræddum FSU leik. Þeir félagar hafa verið sigursælir saman í yngri flokkum og unnið þar fjölmarga titla undanfarin ár.