Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Toppsætið í sjónmáli eftir sigur
Miðvikudagur 27. júní 2007 kl. 23:33

Toppsætið í sjónmáli eftir sigur

Keflavík er einungis tveimur stigum á eftir toppliði FH eftir leiki kvöldsins í Landsbankadeild karla í knatspyrnu. Keflavík vann góðan heimasigur á Fylki, 1-0 með marki Símun Samuelsen á meðan FH galt afhroð gegn Val, 4-1.

Leikurinn á Keflavíkurvelli byrjaði ekki beint með flugeldasýningu. Stífur vindur var í bak heimamanna en liðin reyndu hvað efttir annað að skjóta háum boltum sem sjaldnast rötuðu á samherja og urðu þaðan af síður að færum.

Það var svo eftir um stundarfjórðungsleik sem Keflvíkingar fóru að finna sig og skapa færi. Það fyrsta kom á 19. mínútu þegar Jónas Guðni Sævarsson átti skot yfir markið eftir hornspyrnu.

Baldur Sigurðsson reyndi svo á Fjalar Þorgeirsson í Fylkismarkinu með föstum skalla sem Fjalar sló vasklega frá. Fylkismenn voru svo heppnir skömmu síðar þegar þeir náðu að hreinsa eftir nauðvörn þegar Baldur slapp með boltann inn í vítateiginn.

Fram að hálfleik virtist sem Fylkismenn væru að spila upp á jafntefli því þó þeir væru þéttir fyrir í vörninni var lítið bit í sókninni. Þeim til varnar var mótvindurinn ekki að gera þeim neina greiða.

Keflvíkingar voru umtalsvert betri aðilinn í fyrri háfleik en vantaði herslumuninn fyrir framan markið.

Í síðari hálfleik mættu Fylkismenn mun frískari til leiks og nutu meðbyrsins. Þeir áttu nokkrar ágætar sóknir en varnarmenn Keflvíkinga voru vel á verði sem og Ómar Jóhannsson sem átti stórleik í markinu.

Það var hins vegar færeyski töframaðurinn Símun Samúelsen sem sneri leiknum aftur við þegar hann skoraði laglegt mark á 61. mínútu. Keflvíkingar höfðu sótt stíft þegar Jónas lyfti knettinum inn á teiginn þar sem Símun tókk við honum og renndi framhjá Fjalari og í netið.

Símun hafði gert mikinn óskunda á vinstri kantinum í fyrri hálfleik, en var færður í framlínuna í þeim seinni í stað Þórarins Kristjánssonar, sem meiddist lítillega.

Heimamenn voru mjög öruggir í sínum aðgerðum eftir markið þar sem fyrirliðinn Jónas Guðni stýrði miðjunni eins og herforingi, Guðjón Árni Antoníusson skilaði bakvarðarstöðunni vel í vörn og sókn auk þess sem Guðmundur Steinarsson var ákaflega iðinn og drífandi í sókninni.

Á lokakaflanum voru Keflvíkingar óheppnir að auka ekki muninn þegar Símun slapp einn inn fyrir. Hann lék á Fjalar, en var kominn í of þröngt færi og sóknin fór því forgörðum.

Rétt áður en leikurinn var flautaður af kom upp leiðinlegt atvik þar sem David Hannah, varnarmaður Fylkis, lét gremjuna hlaupa með sig í gönur og braut á Símuni. Eftir það ruku þeir saman og féllu báðir í grasið. Ekki var gott að sjá hvað átti sér stað, en dómarinn gaf þeim báðum gult spjald.

Ekki er hægt að segja annað en að sigurinn hafi verið fyllilega verðskuldaður og nú verður sannarlega fróðlegt að sjá hvernig málin þróast í toppbaráttunni.

Staðan í deildinni

 

VF-myndir/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024