Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Toppliðið lá gegn botnliðinu
Laugardagur 1. mars 2008 kl. 10:15

Toppliðið lá gegn botnliðinu

Óhætt er að segja að Keflvíkingar hafi farið fýluferð til Hveragerðis í gær er þeir máttu sætta sig við 94-88 ósigur gegn botnliði Hamars í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Fyrir vikið náðu Íslandsmeistarar KR að jafna Keflavík á toppi deildarinnar og hefur spennan í baráttunni um deildarmeistaratitilinn aukist til muna.

 

Magnús Gunnarsson vaknaði til lífsins og gerði 29 stig fyrir Keflvíkinga í gær en Tommy Johnson var fjarri sínu besta og gerði aðeins 4 stig á 30 mínútum fyrir Keflavík. Spurning hvort sá drengur þurfi ekki að fara að athuga sinn gang enda vart skugginn af sjálfum sér eftir áramót og hefur það bitnað verulega á Keflavíkurliðinu.

 

Ósigur Keflavíkur í gær kom vissulega á óvart sérstaklega þar sem finnska landsliðsmanninn Roni Leimu vantaði í lið Hamars og þá sendi Hamar Nicholas King til síns heima fyrir skemmstu og voru því ekki með fullskipað lið í gær.

 

Nú er 19 umferðum lokið í deildarkeppninni og Keflavík og KR bæði með 30 stig á toppnum, skammt undan er Grindavík með 28 stig og Njarðvíkingar eru í 4. sæti með 22 stig.

 

Tölfræði úr leik Hamars og Keflavíkur

 

VF-Mynd/ [email protected] - Magnús Þór hrökk í gang fyrir Keflavík í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024