Tólf marka sigur Hafna í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins
Það má segja að knattspyrnuvertíðin hafi formlega hafist um helgina þegar fyrsta umferð í Mjólkurbikar karla var leikin. Fimm Suðurnesjalið léku í umferðinni; Víðir, Reynir, Þróttur, RB og Hafnir, og komust þrjú þeirra í næstu umferð. Víðir, RB og Hafnir unnu sína leiki en Reynir og Þróttur eru úr leik.
Hafnir - KM 12-0
Eins og tölurnar gefa til kynna unnu Hafnamenn yfirburðasigur og þrír leikmenn þeirra skoruðu þrennu í leiknum.
Anton Freyr Hauks Guðlaugsson skoraði fyrsta markið á sjöundu mínútu og hann var svo aftur á ferðinni á þeirri fjórtándu.
Max William Leitch henti þá í þrjú mörk í röð (21’, 30’ og 35’) og Jón Arnór Sverrisson skoraði svo síðasta markið í fyrri hálfleik (42’), staðan 6-0 í hálfleik.
Jón Arnór skoraði sjöunda markið á 55. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Ægir Þór Viðarsson úr víti (59’).
Jón Arnór skoraði þriðja mark sitt á 71. mínútu og tíu mínútum síðar komst Gunnólfur Björgvin Guðlaugsson á blað (81’).
Það var svo Ægir Þór sem fullkomaði þriðju þrennuna með mörkum á 84. og 86. mínútu.
Mídas - RB 1-3
Mídas komst yfir í lok fyrri hálfleiks (45’) en þrjú mörk frá Harum Crnac (72’), Augusto Colenari (78’) og Recoa Reshan Martin (81’) sáu til þess að RB fór með sigur af hólmi.
Víðir - Sindri 2-1
Leikur Víðis og Sindra var hörkuspennandi en það voru heimamenn sem náðu forystu þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka þegar David Toro Jimenez skoraði (71’).
Sindramenn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu leikinn á 84. mínútu og þegar blásið var til loka venjulegs leiktíma var staðan jöfn, 1-1.
Það þurfti því að grípa til framlengingar og í lok hennar tryggði Daniel Beneiter Fidalgo Víði sigur (120’).
KG - Reynir 5-1
Reynir tók forystu snemma í leiknum með marki frá Bergþóri Inga Smárasyni (7’) en í uppbótatíma fyrri hálfleiks varð Sindri Lars Ómarsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark (45’+1).
Staðan var jöfn í hálfleik (1-1) en KH tók öll völd í þeim seinni og skoraði fjögur mörk (62’ víti, 74’, 85’ víti og 90’+2).
Þróttur - KÁ 1-3
Þróttur Vogum tók á móti KÁ og það voru gestirnir sem náðu tveggja marka forystu (43’ og 57’) áður en Mira Hasecic minnkaði muninn fyrir Þrótt í eitt mark (59’).
Gestirnir gulltryggðu sigurinn í uppbótartíma (90’+4) og Þróttur því úr leik.