Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Tókum hressilega á því í seinni hálfleik“
Laugardagur 19. nóvember 2005 kl. 21:34

„Tókum hressilega á því í seinni hálfleik“

Njarðvíkingar eru Powerade meistarar 2005 eftir 12 stiga sigur á KR, 90-78, í Laugardalshöllinni. Vesturbæingar hófu leikinn af miklum krafti en Njarðvíkingar komu grimmir til seinni hálfleiks og báru sigur úr býtum.
 
Brenton Birmingham gerði fyrsta stig leiksins af vítalínunni en KR-ingurinn Baldur Ólafsson svaraði í sömu mynt og kom KR yfir 2-1. Þegar tæpar 4 mínútur voru til loka fyrsta leikhluta höfðu KR-ingar yfir 13-11 og breyttu stöðunni í 16-11 þegar Halldór Karlsson fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir mótmæli í garð dómara. Í garð gekk góður kafli hjá KR og komust þeir í 21-13 með þriggja stiga körfu frá Brynjari Björnssyni. Innkoma Halldórs Karlssonar af bekknum ætlaði ekki að verða heillasöm en hann fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að hlaupa niður einn leikmann KR. Halldór fékk þar með sína þriðju villu strax í fyrsta leikhluta og KR höfðu yfir að honum loknum, 27-19.
 
Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 27-24 með þriggja stiga körfu frá Jeb Ivey og körfu frá Friðriki Stefánssyni. Annar leikhluti var ekki mikið fyrir augað og einkenndist af sterkri vörn hjá báðum liðum. Þegar um fimm mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta höfðu Njarðvíkingar gert 6 stig á móti tveimur frá KR og staðan því 29-25 KR í vil.
Steinar Kaldal, fyrirliði KR, fékk sína þriðju villu þegar tæpar 4 mínútur voru til hálfleiks og fór hann á bekkinn. KR-ingar héldu þó sínum dampi og jók Níels Dungal muninn í 10 stig með þriggja stiga skoti, 34-44 fyrir KR. Njarðvíkingar áttu þó lokaorðið fyrir hálfleik og staðan 36-44 er liðin gengu til búningsklefanna. Jeb Ivey var engan veginn að finna fjölina í fyrri hálfleik en hann átti eftir að láta að sér kveða síðar.
 
Fannar Ólafsson opnaði seinni hálfleikinn með skoti úr teignum og kom KR á nýjan leik í 10 stiga forystu, 36-46. Njarðvíkingar settu þá í fluggírinn og gerðu 14 stig í röð og breyttu stöðunni í 50-46. Egill Jónasson og Guðmundur Jónsson, leikmenn Njarðvíkur, fengu báðir sína þriðju villu í þriðja leikhluta en það skipti ekki sköpum hjá Njarðvíkingum og héldu þeir áfram að spila gríðarlega sterka vörn sem KR-ingar áttu fá svör við.
Þegar skammt var til loka þriðja leikhluta var staðan 57-51 fyrir Njarðvík, Halldór Karlsson fékk þá þrjár tilraunir í þremur sóknum til þess að setja niður sniðskot en honum misfórst að nýta tækifærin sín. Brotið var á Halldóri í lok þriðja leikhluta og hann fór á vítalínuna, klikkaði úr fyrra skotinu, en setti það seinna niður. Staðan að loknum þriðja leikhluta því 58-51 Njarðvík í vil og ótrúlegur viðsnúningur á leiknum.
 
Eftir slappa innkomu í þriðja leikhluta fór Halldór Karlsson mikinn í þeim fjórða og gerði fyrstu stig leikhlutans og breytti stöðunni í 60-51. Til að bæta gráu ofan á svart hjá KR-ingum fékk Fannar Ólafsson sína fimmtu villu þegar um 8 mínútur voru til leiksloka og varð því frá að hverfa. Omari Westley, bandaríski leikmaður KR, átti góðan dag og minnkaði hann muninn í 62-54 þegar brotið var á honum í skoti sem hann setti niður en hið sama gerði hann á vítalínunni. Smiðshögg leiksins ráku þeir Jeb Ivey og Brenton Birmingham fyrir Njarðvíkinga þegar þeir gerðu sína hvora þriggja stiga körfuna með skömmu millibili og komu Njarðvíkingum í 72-54. Eftir það var aldrei spurning um hvort liðið færi með sigur af hólmi og urðu lokatölur eins og áður segir, 90-78, Njarðvíkingum í vil.
 
Jeb Ivey var stigahæstur í liði Njarðvíkinga með 20 stig en Brenton Birmingham og Friðrik Stefánsson komu honum næstir með 19 stig hvor. Egill Jónasson og Guðmundur Jónsson áttu einnig góðan dag og þá sérstaklega í vörninni, Egill varði 9 skot og Guðmundur var sóknarmönnum KR-inga illviðráðanlegur.
 
Hjá KR var Omari Westley með 28 stig, 19 fráköst og 6 varin skot. Skarphéðinn Ingason var honum næstur með 16.
 
,,Við Gunnar töluðum um það við mannskapinn í hálfleik að okkur fyndist menn ekki vera jafn hungraðir í dag og þeir voru í gær gegn Keflvíkingum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir leikinn. ,,Varnarleikurinn var bara lélegur til að byrja með og það er óásættanlegt að fá sig 44 stig í fyrri hálfleik. Við tókum hressilega á því í seinni hálfleik og uppskárum sigur og á tímabili þá fengu KR-ingar vart skot á körfuna,“ sagði Einar að lokum.
 
Tölfræði leiksins

Texti: Jón Björn Ólafsson, Mynd: Héðinn Eiríksson (Úr Keflavík-Njarðvík). Myndir úr úrslitaleiknum birtast á morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024