Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Titilvörnin hófst á sigri
Þriðjudagur 11. október 2005 kl. 21:18

Titilvörnin hófst á sigri

Keflavíkurstúlkur lögðu ÍS í fyrsta leik tímabilsins í Icelandic Express deild kvenna í körfuknattleik. Leik kvöldsins lauk með 16 stiga sigri Keflavíkur 61-77 í íþróttahúsi Kennaraháskóa Íslands. Titilvörn Keflavíkurstúlkna hófst því á sigri en fyrr í dag var þeim spáð Íslandsmeistaratitlinum að nýju, gangi sú spá eftir verður það í fjórða sinn á jafn mörgum árum sem Keflavík verður Íslandsmeistari í kvennakörfu.

„Þetta var góður sigur en ekkert sérstakur leikur. Við náðum strax forskoti en svo gætti full mikils kæruleysis hjá okkur. Við pressuðum stíft á ÍS í kvöld en sóknarleikurinn var frekar dapur og við vorum oft að henda boltanum klaufalega frá okkur. Við eigum mikið inni,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkurkvenna, í samtali við Víkurfréttir í kvöld.

Keflavík mætir KR í næstu umferð Iceland Express deildarinnar en sá leikur fer fram í Sláturhúsinu að sunnubraut miðvikudaginn 19. október kl. 19:15.

„KR liðið á eftir að styrkjast mikið þrátt fyrir að þeim hafi verið spáð falli í dag, þær eiga von á tveimur Evrópuleikmönnum og einum kana og þær verða sterkar,“ sagði Sverrir að lokum.

Reshea Bristol skoraði 16 stig fyrir Keflavík og María B. Erlingsdóttir 15 en hjá Stúdínum gerði Signý Hermannsdóttir 16 stig.

 Tölfræði leiksins

VF-mynd/ frá viðureign liðanna á síðustu leiktíð

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024