Tippleikur Víkurfrétta fer aftur af stað
Hámundur Örn Helgason, sigurvegari í tippleik Víkurfrétta á síðasta tímabili, mætir Sigurði Óli Þórleifssyni, eiganda Njóttu ferða sem bjóða sigurvegara tippleiksins og blaðamanni Víkurfrétta á bikarúrslitaleikinn í enska boltanum í maí 2025.
Áfram munu tveir tipparar mætast í hverri viku og sá sem sigrar heldur áfram. Þegar fjórar umferðir verða eftir af ensku úrvalsdeildinni munu fjórir efstu í tippleiknum hefja nýjan leik og tippa sín á milli síðustu fjórar umferðirnar og sá sem fær flesta rétta í þeim fjórum umferðum sigrar og fær að launum ferð til London á Wembley.
Sigurður Óli og Hámundur mætast í sérstökum kynningarleik í þessari viku. Sjálf keppnin hefst svo í næstu viku þar sem tveir tipparar reyna með sér.
„Það er gaman fyrir okkur að vera styrktaraðili í tippleik Víkurfrétta, og við bjóðum sigurvegaranum og blaðamanni VF miða á úrslitaleik FA Cup. Það er aldrei að vita nema ég skelli mér með ef mínir menn í United verða aftur í úrslitum,“ sagði Sigurður Óli.
Tippmeistari síðasta tímabils var ánægður með árangur sinn á síðasta tímabili.
„Það var gaman að taka þátt í fyrra og auðvitað frábært að vinna leikinn og fara í eftirminnilega ferð á Wembley. Sá sem vinnur í ár á von á góðu,“ sagði Hámundur.