Tindastóll vann í Grindavík eftir framlengdan leik
Grindavík tók á móti Íslandsmeisturum Tindastóls í þriðju umferð Subway deildar karla í kvöld. Heimamenn voru búnir að tapa báðum sínum leikjum en Stólarnir vinna sína. Áfram vantaði Danann Mortensen hjá heimamönnum og Pétur Rúnar Birgisson var fjarverandi hjá Tindastóli. Eftir æsispennandi leik sem Grindvíkingar leiddu nánast að fullu, unnu Stólarnir öruggan sigur í framlengingunni, lokatölur 96-106.
Fyrsti fjórðungur var í járnum má segja en eftir að Dungilas fékk tæknivillu náðu heimamenn frumkvæði og voru með 25-21 forystu eftir opnunarfjórðunginn. Basile var kominn með 7 stig og tvær stoðsendingar hjá heimamönnum en hjá voru Drungilas og Þórir atkvæðamestir með 7 og 6 stig.
Sami barningur var í öðrum leikhluta. Blaðamaður sat nálægt bekk Tindastólsmanna og þurfti hvorki gleraugu né heyrnartæki til að sjá eða heyra óánægju þeirra yfir störfum dómaratríósins. Pavel tók leikhlé í stöðunni 33-29 þegar rúmar sex mínútur lifðu hálfleiksins en lítið breyttist, sigurslausir Grindvíkingar voru með stjórnina og juku forskotið. Stólarnir eru hins vegar ekki Íslandsmeistarar fyrir ekki neitt og náðu fljótt áttum og liðin fóru inn í hálfleiksorkudrykkinn með stöðuna 47-43. Óli Ól og útlendingar Grindvíkinga voru atkvæðamestir en sonur Helga Jónasar Guðfinnssonar vakti athygli blaðamanns, hugsanlega er Arnór efni í föðurbetrung. Hjá Stólunum voru Sigtryggur Arnar og Þórir atkvæðamestir hvað stigaskorun snertir, báðir með 11 stig.
Stólarnir byrjuðu sterkar í seinni hálfleiknum en svo fóru gulir og barnfæddir Grindvíkingar að koma af bekknum, meðal annars setti Hilmir „sexy“ flottan þrist og fyrrnefndur Arnór Helgason lét grindvíska áhorfendur nánast rífa þakið af hinum nýja HS orkusal þegar hann setti sína aðra troðslu, þá seinni eftir glæsilega „aftur fyrir bak“-sendingu frá Vali Orra. Pavel reyndi þá að stöðva blæðinguna með leikhléi en gulir héldu áfram og Arnór setti svo flottan þristi úr horninu, stemningin öll gulra sem héldu með 5 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 68-63.
Lokafjórðungurinn var blóðug barátta, dramatík, tæknivillur og sjóvarpsatriði þar sem dómarnir skoðuðu vafaatriði á sjónvarpsskjá. Basile fékk tæknivillu og þar með sína fimmtu en Grindavík var samt í bílstjórasætinu, gestirnir þó skammt undan og Lettinn Geks með flotta hittni fyrir utan. Þegar rúmar tvær mínútur lifðu leiks munaði bara þremur stigum. Sókn Grindvíkinga virtist vera fjara út og Óli tók örvæntingarþrist og brotið á honum, fyrirliðinn setti ⅔ vítum niður og Sigtryggur setti svo þrist og bara tveggja stiga leikur, ljóst að þessi leikur færi alla leið. Sigtryggur jafnaði 93-93 þegar 34 sekúndur voru eftir og spennan rafmögnuð! Grindavík lét Deandre Kane sjá um lokaskotið en í stað þess að keyra upp að körfunni tók hann lélegan „airball“ þrist en Grindavík náði samt frákastinu og var nálægt því að setja boltann niður og engu munaði að Sigtryggur setti sigurkörfuna frá miðju. Framlenging í þessum frábæra leik!
Hinn frábæri fékk sína fimmtu villu undir lok leiksins og annar ungur og efnilegur, Hafliði Róbertsson fékk að spreyta sig. Stólarnir tóku núna stjórnina og komust fljótlega fimm stigum yfir. Grindavík reyndi að klóra í bakkann en þarna voru Íslandsmeistararnir búnir að finna blóðbragðið og lönduðu tiltölulega öruggum sigri í lokin, . Stólarnir settu sína þrista í lokin á meðan Grindvíkingar voru búnir með bensínið.
Sigtryggur Arnar minnti á sig á gamla heimavellinum - þó svo að hann hafi ekki áður leikið í HS orkuhöllinni en hann var frábær í seinni hálfleik og framlengingu og skoraði samtals 32 stig. Geks var sömuleiðis flottur með 23 stig. Það er ekki oft sem maður sér bandarískan leikmann með 0 stig, það voru örlög Stephen Domingo.
Hjá Grindavík var fyrirliðinn Óli Ól stigahæstur og besti leikmaðurinn, endaði með 24 stig og 8 fráköst. Kane er hörku leikmaður og það hefði munað um að hafa Basile með í lokabaráttunni.