Tillögu að deiliskipulagi við Hafnargötu 12 hafnað
Mikill fjöldi athugasemda barst frá íbúum og Minjastofnun
Tillögu að deiliskipulagi vegna reitar við Hafnargötu 12 var hafnað á síðasta fundi umhverfis og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Mikill fjöldi athugasemda barst frá íbúum og Minjastofnun þar sem inntök athugasemda íbúa voru m.a: allt of mikið byggingarmagn, fjöldi íbúða allt of mikill, útsýnisskerðing, umferðaraukning, stílbrot við umhverfið, misræmi við gildandi aðalskipulag, byggingar úti lóðamörk og bílakjallari.
Minjastofnun telur mikilvægt að endurskoða mótun og umfang nýbygginga á deiliskipulagsreitnum þannig að uppbyggingin taki í meira mæli tillit til mismunandi einkenna, mælikvarða og yfirbragðs sögulegrar byggðar og götumynda í nánasta umhverfi og við aðliggjandi götur.
Skipulag á reitinum hefur valdið fjaðrafoki og var t.a.m. mikill hiti á fundi þar sem byggingin var kynnt fyrir skömmu.
Umfjöllun: Heitur reitur við Hafnargötu 12
Í fundargerð segir: „Þar sem fjöldi rökstuddra athugasemda bárust frá íbúum og Minjastofnun þá er deiliskipulagstillögunni hafnað. Í framhaldi mun Umhverfis- og skipulagsráð sjá til þess að gerðir verði fastmótaðir skipulagsskilmálar fyrir lóðina Hafnargata 12 sem taki mið m.a. af athugasemdum sem bárust.“