Til skammar fyrir körfuboltahreyfinguna - segir fyrirliði Grindavíkur
„Tilfinningin er bara góð og það er frábært að komast í bikarúrslitin“, sagði Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur eftir frækinn sigur Grindvíkinga á Keflavík í undanúrslitum Powerade bikarkeppninnar í körfubolta í Toyota höllinni í gær.
„Ég tek þetta algjörlega á mig, ég hélt að það væri minna eftir. Ég var að bíða eftir þriggja stiga körfu hjá honum en það var meira eftir af klukkunni en ég hélt. Ef hann hefði skorað og þeir þannig unnið leikinn, hefði ég tekið það á mig“, sagði Þorleifur aðspurður út í lokasekúndur leiksins þegar Billy Baptist brunaði upp völlinn á 5 sekúndum og var nálægt því að stela sigrinum.
Hann segist sáttur með leik sinna manna en var ósáttur við dómgæsluna. Hann segir að það sé til skammar hvað dómarar leyfa Keflvíkingum alltaf að beita mikilli hörku á heimavelli. Eða eins og Þorleifur orðaði það: „Við undirbjuggum okkur undir það að það yrði leyfður mikill sláttur eins og alltaf í Keflavík. Þetta er til skammar fyrir körfuboltahreyfinguna finnst mér.“
Þið misstuð Sigurð Þorsteinsson útaf með 5 villur, hvað viltu segja um það?
„Siggi var bara lélegur í þessum leik. Ég læt hann heyra það þegar ég kem inn í klefa. Annars var þetta bara sterkt hjá okkur að vinna þennan leik.“
Samuel Zeglinski sækir að körfu keflavíkur.
Keflvíkingar fagna eftir tilþrif.
Sverrir fagnar með Grindvíkingum eftir rosalegan leik.
Grindvíkingar þakka fyrir sig.