Tiffany: Höfum ekki enn leikið okkar besta leik á útivelli
Miðherji Grindavíkur í Iceland Express deild kvenna, Tiffany Roberson, var í dag valin í úrvalslið deildarinnar fyrir umferðir 10-17. Roberson hefur farið á kostum í sterku liði Grindavíkur og er frákastahæsti leikmaður deildarinnar með 16,3 fráköst að meðaltali í leik. Þá er Roberson fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 28,0 stig að meðaltali í leik. Tiffany er sátt þessa dagana við hvernig Grindavíkurliðið er að spila og segist ekki láta bikarúrslitaleikinn 24. febrúar trufla sig í næstu verkefnum.
,,Við höfum verið að leika virkilega vel saman sem lið að undanförnu en það tók okkur Skibu aðeins lengri tíma en við ætluðum okkur að falla inn í Grindavíkurliðið en betra seint en aldrei,” sagði Tiffany kát í bragði í samtali við Víkurfréttir.
Tiffany bætti sig um heila 5,5 í framlagsjöfnunni þar sem hún fór úr 30,8 eftir fyrri umferð deildarinnar í 36,3 stig. Hún fór úr 22,8 stigum skoruðum í leik í 28,0 og hefur verið illviðráðanleg í teignum.
,,Ég reyni hvað ég get til að landa sigrinum þegar flautan gellur og stelpurnar eru að finna mig vel í teignum. Við erum með góðar skyttur á borð við Skibu og Ingibjörgu sem hefur oft auðveldað mér lífið í teignum,” sagði Roberson sem er með 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Bikarúrslitin eru skammt undan og segir Tiffany að Laugardalshöllins sé ekkert að trufla hana þessa dagana: ,,Við höfum reyndar ekki enn fundið okkar besta leik á útivelli og förum brátt að finna okkur þar, annars er bikarinn ekki mikið að trufla okkur og við einbeitum okkur bara að Fjölni núna,” sagði Tiffany en liðin mætast í Grindavík annað kvöld kl. 19:15.
VF-Mynd/ [email protected] – Roberson tekur við verðlaunum sínum sem leikmaður í úrvalsliði umferða 10-17 í Iceland Express deild kvenna. Með henni á myndinni er Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands.