Tífalt fleiri í apríl í Leirunni en í fyrra
„Ekki aðeins hafa margfalt fleiri kylfingar komið til okkar heldur finnum við líka fyrir miklum áhuga heimamanna. Við höfum tekið við mörgum nýjum félögum núna í vor og vetur“
„Apríl er búinn að vera okkur alveg frábær mánuður. Við erum komin í tvö þúsund kylfinga og endum líklega í um 2400. Það er meira en tífalt fleiri gestir en í fyrra þegar aðeins um 200 manns mættu með kylfurnar í Leiruna,“ segir Gunnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja en árið hefur farið vel af stað í Leirunni með góðviðri og góðu ástandi á Hólmsvelli.
Gunnar segir að völlurinn hafi komið afar vel undan vetri og það sé búið að vera stöðugur straumur kylfinga í Leiruna, mikil aðsókn í fjögur mót og þessi mikla aukning hafi komið sér vel fyrir veskið hjá klúbbnum. „Ekki aðeins hafa margfalt fleiri kylfingar komið til okkar heldur finnum við líka fyrir miklum áhuga heimamanna. Við höfum tekið við mörgum nýjum félögum núna í vor og vetur.“
Það er stíf mótadagskrá framundan í Leirunni í sumar bæði í opnum mótum sem og innanfélagsmótum sem jafnan eru haldin alla þriðjudaga. Stærsta mótið verður Íslandsmótið í holukeppni 18.-21. júní þar sem bestu kylfingar landsins reyna með sér.