Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þurfum meira fjármagn
Fimmtudagur 6. september 2007 kl. 13:55

Þurfum meira fjármagn

Enn eina ferðina mega Keflvíkingar sætta sig við að sjá á eftir sterkum leikmönnum í atvinnumensku erlendis áður en keppnistíðinni í fótboltanum er lokið á Íslandi. Eftir frábært upphaf á leiktíðinni fór að halla undan fæti og sú ákvörðun tekin að selja Baldur Sigurðsson og lána Símun Samuelsen til Notodden í Noregi þar sem norska liðið á kost á því að kaupa hann að loknum lánstíma. Þá er ljóst að Branislav Milicevic leiki ekki með Keflavík á næstu leiktíð þar sem hann fer til Start í Noregi eftir þetta keppnistímabil. Í ljósi sölu þessara leikmanna og annarra sem áður gerðu það gott í Keflavík er ekki furða að fólk spyrji sig hvort þetta ástand sé komið til að vera. Ástand þar sem Keflavík einfaldlega getur ekki haldið úti liði heila leiktíð sem gerir harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum.

 

Rúnar Arnarson formaður KSD Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að Baldur, Símun og Branco hefðu aldrei verið seldir ef Keflvíkingar hefðu að einhverju að keppa í ár. Þegar ljóst varð að Keflavík myndi ekki ná í titil eða Evrópusæti var ákveðið að selja þá leikmenn sem erlend lið höfðu sýnt áhuga. ,,Sölurnar á þessum leikmönnum fara mest í skuldir, rekstur deildarinnar væri klárlega í mínus ef ekki hefðu komið til þessar sölur,” sagði Rúnar en kaupverðið á Baldri er ekki gefið upp né það söluverð sem sett er upp í lánssamningnum sem Símun er á í Noregi.

 

,,Við búum bara við það umhverfi að eiga ekki jafn mikið af stórum stuðningsaðilum eins og mörg lið inni í Reykjavík og út frá þeim forsendum verðum við að reka knattspyrnudeildina. Það þarf meira að koma til ef við ætlum að byggja upp sterkt lið. Við erum þegar byrjaðir að huga að næstu leiktíð og erum með tvo erlenda leikmenn á reynslu hjá okkur en við erum mest spenntir fyrir því að fá íslenska leikmenn til liðs við okkur,” sagði Rúnar.

Aðspurður hver lausnin gæti verið á þessu vandamáli Keflavíkur, þ.e. að geta ekki haldið í alla sína menn út leiktíðina svaraði Rúnar: ,,Lausin er einföld, bæjarbúar og fyrirtæki þurfa að þjappa sér betur að baki liðinu. Málið er ekki flókið, við þurfum meira fjármagn. Keflavík og ÍA eru í svipuðum sporum, bæði liðin eru skammt utan við höfuðborgarsvæðið og hafa ekki úr eins miklu að moða og liðin í Reykjavík. Það kostar hellings pening ef lið ætla að keppa t.d. við Val og FH í dag. Þá er einnig mjög kostnaðarsamt að koma sér á sama stall og þessi lið. Við verðum einfaldlega að horfa í eigin barm, allir, ekki bara stjórnarmenn heldur allir áhugamenn um knattspyrnu í Keflavík,” sagði Rúnar.

 

Ein spurning situr þó eftir, hve marga leikmenn í styrkleikaflokki eins og Baldur, Símun, Hólmar Örn, Hörð Sveins og Stefán Gíslason þarf til þess að selja svo rekstur Knattspyrnudeildar Keflavíkur standi undir sér? Ekki ber svo að skilja að núverandi styrktaraðilar Keflavíkur séu ekki að standa sig í stykkunu því Rúnar bendir einfaldlega á það að meira þurfi að koma til. Ef það gerist ekki þá verður deildin að halda áfram að selja þá leikmenn á viðkæmum tímapunktum þegar erlend atvinnumannalið sýna áhuga.

 

VF-mynd/ Úr safni - Rúnar V. Arnarson, formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur.

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024