„Þú spilar aldrei betur en mótherjinn leyfir“
– segir Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Reynis Sandgerði
Knattspyrnufélagið Reynir Sandgerði er nýliði í annarri deild karla í knattspyrnu eftir að hafa lent í öðru sæti þriðju deildar karla á síðasta tímabili. Eins og við var að búast var nýliðunum ekki spáð neinu sérstöku gengi á sínu fyrsta ári í deildinni en Reynismenn hafa algerlega hunsað þær spár og verma efsta sæti annarrar deildar eftir góðan sigur á Þrótti Vogum í síðustu viku. Víkurfréttir ræddu við Harald Frey Guðmundsson, þjálfara Reynis, um óvænt gengi liðsins og hverjar væntingarnar séu í ár.
„Það er óhætt að segja að við komum svolítið á óvart,“ segir Haraldur. „Þetta fer vel af stað hjá okkur en mótið er náttúrlega bara rétt að byrja, þannig séð, og þetta lítur út fyrir að ætla að verða jöfn og spennandi deild.“
Nokkrir nýir leikmenn hafa bæst í leikmannahóp Sandgerðinga frá síðasta ári, markvörðurinn Rúnar Gissurarson sneri heim frá Njarðvík en auk hans hafa bræðurnir Kristófer Páll og Sæþór Ívan Viðarssynir, frá Keflavík og Leikni Fáskrúðsfirði, Edon Osmani frá Keflavík, Fannar Sævarsson frá Víði og Unnar Már Unnarsson frá Kórdrengjum gengið til liðs við Reyni fyrir þetta tímabil.
– Hver var stefnan fyrir þetta mót?
„Stefnan var að „stabilisera“ Reyni í annarri deild og það er ennþá stefnan. Komandi upp sem nýliðar þá var það markmið númer eitt að vera búnir að tryggja okkar sæti í deildinni þegar henni lýkur í haust.“
– Það sem heillar marga við Reynisliðið er liðsheildin, það er engin súperstjarna heldur virðist hópurinn smellpassa saman.
„Já, það er stemmning hjá okkur í hópnum og hún verður náttúrlega til þegar þú vinnur leiki, þá verður aðeins meira gaman – en jú, þetta er flottur hópur sem við erum með og við ætlum bara að halda áfram að sækja fleiri sigra.“
Haraldur, sem er uppalinn Keflvíkingar, stakk sér beint í djúpu laugina þegar hann hóf sinn þjálfaraferil en hann tók við meistaraflokki Reynis, sem þá var í fjórðu deild, árið 2018.
– Þjálfaðir þú enga yngri flokka áður en þú tókst við meistaraflokki?
„Ég tók hálft sumar með Unnari þar sem við vorum að þjálfa annan flokk Reynis. Það var árið 2017, ári eftir að ég hætti að spila með Keflavík. Svo tók ég við meistaraflokki Reynis 2018, svo þetta er fjórða tímabilið mitt með liðið. Síðan þá eru við búnir að vinna okkur upp úr fjórðu deildinni og ég held að það sé ágætis plan að stefna á að halda sætinu í annarri deild.“
– Þoð voruð töluvert sterkari aðil-inn í leiknum gegn Þrótti í síðustu viku. Þeir hafa kannski ekki hitt á sinn besta dag en hvernig metur þú leikinn?
„Við vorum svo sem án nokkurra sterkra manna í þessum leik en við vorum góðir í leiknum, vorum þéttir fyrir og gáfum fá færi á okkur – og beittum skyndisóknum. Það gekk upp hjá okkur, allavega í þessum leik. Þetta var það sem við lögðum upp með og þeir kannski ekki hitt á sinn besta dag en þú spilar svo sem aldrei betur en mótherjinn leyfir og við lokuðum vel á þá.“
– Talandi um það ef tölfræðin er skoðuð úr leik Vikings og Vålerenga um helgina, þar sem Samúel Kári skoraði eitt marka norsku Víkinganna. Vikings voru með boltann 33% af leiktímanum en unnu 4:1.
„Já, það segir ekki allt að halda boltanum, þótt það sé alltaf skemmtilegra – svo fer svolítið púður í það að vera alltaf að elta. Mörk breyta leikjum hins vegar og það hefði getað skapast mikil pressa á okkur í lokin ef þeir hefðu skorað úr vítinu og minnkað muninn í 3:2 með fjórar, fimm mínútur eftir. Svipað og gerðist hjá þeim á móti Njarðvík, þá voru Njarðvíkingar 3:1 yfir í fyrstu umferðinni og misstu það niður í jafntefli – en Rúnar var betri en enginn í markinu og varði vítið.“
– Hvað með fyrirliðann hjá ykkur, Strahinja Pacik, var hann meiddur?
„Já, Strahinja er meiddur. Unnar Már og Barros líka. Við sjáum betur stöðuna á þeim á æfingum í vikunni en liðið allt er búið að æfa vel og annars allir í toppformi.“
– En þið takið bara einn leik í einu, er það ekki?
„Jú, við tökum á móti Magnamönnum á laugardaginn og ætlum okkur ekkert annað en sigur í þeim leik,“ segir Haraldur en það verður spennandi að sjá hverju fram vindur í annarri deild í sumar sem virðist ætla að verða hin mesta skemmtun enda deildin jöfn við eigum örugglega eftir að sjá mörg óvænt úrslit líta dagsins ljós.