Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þú getur gert þetta að ævistarfi
Freyr á æfingu í Reykjaneshölinni. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 7. maí 2023 kl. 06:34

Þú getur gert þetta að ævistarfi

Keflvíkingurinn Freyr Sverrisson hefur haft brennandi áhuga á knattspyrnu eins lengi og hann man eftir sér en hann hefur þjálfað fleiri upprennandi knattspyrnustjörnur en flestir. Víkurfréttir settust niður með Frey og röktu úr honum garnirnar en kappinn hefur frá mörgu merkilegu að segja af löngum þjálfaraferli.

Hverfislið spiluðu sín á milli

Fótboltaferill Freys byrjaði í Keflavík þar sem hvert hverfi hafði sitt fótboltalið, skipuð ungum peyjum sem spörkuðu boltatuðrum alla daga frá morgni til kvölds.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við Brekkubraut voru strákar með hverfislið, þar sem styttan af Óla Thors er, og þangað fórum við strákarnir til að spila fótbolta. Svo fékk strákur sem bjó þarna í blokkinni, Unnar Stefánsson, mig til að mæta á æfingar hjá Ungó, sem var Ungmennafélag Keflavíkur. Þar byrjaði maður og þá var bara æft einu sinni í viku en svo skipti ég yfir í KFK og ég er rosalega mikil KFK-maður, Knattspyrnufélag Keflavíkur. Mikill Sigga Steindórs maður. Hann var vallarstjóri á vellinum og á þessum árum var Keflavík gullaldarlið, það voru þrjú, fjögur þúsund á vellinum og maður var að tína flöskur, skríða undir girðinguna og kallinn að öskra á mann. Svo urðum við bara góðir vinir og hann kom mér í þjálfunina.

Í þá daga var maður bara að þjálfa af því að maður var KFK-maður, þetta var bara gert í sjálfboðavinnu. Manni þótti vænt um kallinn og félagið – svo laumaði kallinn kannski þrjú þúsund krónum í jólaumslagið, sem var töluverður peningur fyrir ungan strák.

Magnús Haraldsson, Hafsteinn Guðmundsson, Geirmundur Kristinsson og Sigurður Steindórsson. Mynd frá u.þ.b. 1972. Úr safni Byggðasafns Reykjanesbæjar


Svo kom hann einu sinni til mín og sagði: „Þú getur gert þetta að ævistarfi. Þú ert með ákveðið geð í þetta. Ég man alltaf eftir þessum orðum,“ segir Freyr sem fór líka að þjálfa handbolta samhliða því að spila fótbolta með Keflavík eða ÍBK eins og það var þá. „Ég varð Íslandsmeistari sjálfur í þriðja og fjórða flokki í fótbolta. Fór svo að þjálfa og spila handbolta yfir vetrartímann.

Í þá daga var fótboltinn náttúrlega bara búinn í september og byrjaði ekki aftur fyrr en í febrúar, þannig að maður hafði tíma til að fara í aðra íþróttagrein.“

Freyr segist hafa farið á fullt í þjálfun árið 1981, þá átján ára gamall, þegar hann varð aðstoðarþjálfari hjá Keflavík í yngri flokkunum og hefur verið í fullu starfi við þjálfun frá 1995. „Þegar Njarðvík réði mig í fullt starf var það eitt af fyrstu félögunum sem ræður þjálfara í fullt starf. Það var Njarðvík af öllum liðum, sem var þá lítill klúbbur.“

Var það ekki fyrr sem þú byrjaðir að hjálpa til hjá KFK?

„Jú, ég var miklu yngri þegar hann Siggi fékk mig til að aðstoða. Tólf, þrettán ára var ég byrjaður að hjálpa á æfingum. Maður kynntist honum þegar farið var í keppnisferðir, þá var engin mamma og pabbi að fara með manni, það var bara Siggi og full rúta af börnum. Malli, sonur hans, fór kannski með og í minningunni var þetta rosalega gaman, ekkert vesen og allir vinir.

Það var kannski lítil þjálfun á þessum árum, menn mættu jafnvel í mismunandi ástandi á laugardagsmorgnum til að þjálfa okkur strákana. Það var meira skipt í lið og að spila fjórir á móti fjórum í Myllubakkaskóla sem var eins og Wembley fyrir okkur strákunum.

Á þessum árum vorum við meira og minna okkar eigin þjálfarar, menn voru að leika sér með bolta út um allt og það voru hverfislið um alla Keflavík. Seinna meir flutti ég í Eyjabyggðina og þar urðu til Eyjabyggðapollarnir. Við vorum að spila við lið eins og Fallbyssurnar sem voru á Smáratúninu, svona var þetta á þessum árum. Í minningunni rosalega skemmtilegt og það var verið að leika sér með bolta frá morgni til kvölds.“

Í dag er Freyr að kenna krökkum tæknina sem hann tileinkaði sér sjálfur þegar hann lék sér með bolta.

Þrítugasta mótið í Eyjum

„Árið 1985 fór ég með Keflavík til Vestmannaeyja. Það var fyrsta mótið mitt og hét þá Tommamótið, svo hét það Shellmótið og heitir Orkumótið í dag. Núna í sumar er ég að fara í þrítugasta skipti sem þjálfari. Ég tel það nokkuð gott.“

Freyr hefur unnið mótið þrisvar sinnum í A-liðum og bendir á að það er eitt skipti af hverjum tíu. „Ég fullyrði að þetta er eitt flottasta mót í heimi fyrir þennan aldur. Bara að koma innsiglinguna og vera í Eyjunni, þetta er stórkostleg upplifun fyrir strákana.

Svo er það svo skemmtilegt þegar maður hefur verið svona lengi í þjálfuninni að núna eru pabbarnir farnir að upplifa þetta aftur. Þeir muna þegar þeir voru í þessu sjálfir en í þá daga fórum bara við þjálfararnir með strákana, engir foreldrar. Núna fer enginn foreldralaus á mótið – það eru breyttir tímar.“

Hefur þú menntað þig í þjálfun?

„Fyrst var maður náttúrulega bara að þjálfa en svo fór ég að taka námskeið hjá KSÍ. Ég tók svokallað E-stig 1995 í Þýskalandi, svo í kjölfarið UEFA A og klára það 1998. Þannig að ég er með UEFA A, sem var þá hæsta gráðan, en núna er UEFA Pro sem er fyrir þá sem vilja þjálfa erlendis og þannig. Ég var bara orðinn of gamall til að fara í það en ég tók UEFA Elite-stigið sem er hæsta gráða fyrir þjálfun yngri keppenda og læt það duga – maður er orðinn svo gamall,“ segir Freyr og bætir við að hann sé samt ennþá mjög ferskur.

Freyr í Andorra með U17 landsliði Íslands. Þarna má sjá einn besta knattspyrnumann Íslands, Gylfa Þór Sigurðsson (14).

Heil vinnuvika án þess að fá á sig mark

Hefur þú alltaf einbeitt þér að yngri flokkum?

„Já, það má segja það. Samt hef ég tekið meistaraflokk. Það var þannig að ég var að vinna í heildsölu í Reykjavík og sá í auglýsingu í Morgunblaðinu að það vantaði spilandi þjálfara hjá Hetti á Egilsstöðum. Ég sótti um stöðuna og var ráðinn.“

Freyr og eiginkona hans voru barnlaus á þessum tíma og fluttu austur 1991 þar sem Freyr tók við þjálfun meistaraflokks Hattar og lék með liðinu.

„Það gekk rosalega vel. Við unnum riðilinn fyrir austan og þá voru tíu lið fyrir austan; það var Sindri Hornafirði, Neisti Djúpavogi, Huginn Seyðisfirði, Þróttur Neskaupstað, Valur Reyðarfirði, Hrafnkell Freysgoði Fellabæ og fleiri – þetta var tíu liða riðill og mikið fjör.

Ég var tvö tímabil í röð með Hött og það er gaman að segja frá því að ég á ennþá metið sem meistaraflokksþjálfari, við héldum hreinu í fjórtán leikjum í röð. Það er heil vinnuvika án þess að fá á sig mark.

Þetta var í fjórðu deildinni og Eysteinn Hauksson var þá sextán, sautján ára og ég 29 ára seinna árið mitt hjá Hetti. Þegar ég var að fara heim fór Eysteinn með mér suður og ég ræð mig sem þjálfara annars flokks Keflavíkur 1993 og jafnframt tók ég sjötta og sjöunda flokk hjá Njarðvík, sem þótti svolítið skrítið. Þarna byrjar uppbygging í Njarðvík og tveimur árum síðar var ég ráðinn yfirþjálfari í fullt starf sem ég gegndi í fimmtán ár. Eysteinn kom, spilaði með Keflavík og hefur ekkert farið heim síðan. Ég fékk líka Frans Elvarsson frá Hornafirði til að koma og leika með Keflavík, hann er hér enn.“

Hvernig er þetta hægt?

„Það byggðist upp rosalega skemmtilegt samfélag í Njarðvík á þessum árum og margir góðir strákar komu upp. Við eignuðumst landsliðsstráka og þetta var afar skemmtilegur tími. Á þessum tíma var maður alltaf í barningi við Keflavík og við gáfum þeim ekkert eftir. Árið 2002 fór ég með lið frá Njarðvík á Shellmótið í Eyjum og við unnum mótið. Ári síðar fór ég með annað lið, allt aðra stráka, og við unnum aftur – við unnum tvö ár í röð, 2002 og 2003. Í kjölfarið á því var ég ráðinn inn sem landsliðsþjálfari og var að vinna með landsliðunum í fimmtán ár. Fór í gegnum 199 landsleiki í 64 ferðum til útlanda. Þannig að það var mikill tími sem fór í það að vera erlendis og kjölfarið á ráðningunni í landsliðið, það er ótrúlegt að segja frá því, var ég með fjórða, fimmta, sjötta og sjöunda flokk í Njarðvík. Ég var með U15 og U16, aðstoðarþjálfari U17 og U19, fór í allar ferðir og var líka með úrtökumótið á Laugarvatni. Það var mót fyrir bestu leikmenn Íslands sem urðu svo þessar stórstjörnur eins og Gylfi [Þór Sigurðsson], Aron Einar [Gunnarsson], Rúrik [Gíslason] og allir þessir strákar – þeir fóru allir í gegnum mig á Laugarvatni. Ég var líka með knattspyrnuskóla á Laugarvatni í fimmtán ár. Þar vorum við tveir í eina viku með fimmtíu stráka, einn leikmann úr hverju liði á Íslandi. Enda var ég oft spurður að því hvernig í ósköpunum þetta væri hægt.

Knattspyrnuskólinn var mikill skóli fyrir strákana. Strákurinn frá Vopnafirði lenti kannski í herbergi með einhverjum úr Reyni Sandgerði, Víðismanni eða KR-ingi – þarna voru menn að kynnast. Þarna voru engir símar, ekki fyrr en seinna meir og þá var það svolítið vandamál. Þá voru menn farnir að hringja heim og gátu jafnvel ekkert verið þarna, það þurfti að hringja í mömmu og jafnvel láta sækja sig. Það var erfitt að koma inn í þetta samfélag en þetta var ofsalega skemmtilegur tími.“

Freyr með Ástráði Gunnarssyni á Norðurlandamóti U17 í Færeyjum.

Það er hægt að gera betur

Freyr segir að það hafi verið Ástráður Gunnarsson, sem var formaður unglingalandsliðanna, sem réð Frey til Knattspyrnusambands Íslands [KSÍ] eftir að Njarðvík vann mótið í Eyjum tvö ár í röð, 2002 og 2003. „Upphaflega réð hann mig til tveggja ára en þau urðu fimmtán og er ég honum ævinlega þakklátur fyrir það.“

Freyr hætti þjálfun hjá Njarðvík og fór til Hauka árið 2007. „Það var ráðningasamningur til þriggja ára en endaði í fimmtán – þetta er voðalega mikið fimmtán ár hjá mér. Haukar eru alveg stórkostlegt félag. Það er svo heimilislegur bragur á því, allar deildir æfa í sömu aðstöðunni og þar kynnast iðkendur þvert á deildir. Þarna hittist fólk og það er það sem vantar hér. Þessari einingu hjá okkur er dreift út um allt. Við höfum ekki náð upp þessari stemmningu sem þarf. Það hefði þurft að byggja stórt íþróttahús á Afreksbrautinni til að tengja okkur betur saman. Þetta eru allt sjálfstæðar einingar úti um allt núna. Haukar til dæmis byggja allt upp að mestu á uppöldum iðkendum með smá styrkingu. Handboltinn, karfan og fótboltinn – þeir eru að gefa þeim tækifæri. Mér leið mjög vel hjá Haukunum þótt maður hefði aldrei inniaðstöðu, það var æft úti í öllum veðrum en þetta víkkaði sjóndeildarhringinn hjá manni.

Freyr með sjötta flokk Hauka.

Keflavík og Njarðvík eru að fá frábæra aðstöðu og ég held að völlurinn við höllina eigi eftir að verða aðalvöllur bæjarins, gervigrasið er framtíðin,“ segir Freyr og bætir við: „Úr því að stórliðin AC Milan og Inter Milan geta deilt heimavelli þá held ég að Keflavík og Njarðvík ættu alveg að geta það. Við erum með þessi tvö félög á nánast sama blettinum í bæjarfélaginu, þetta er ekki eins og FH og Haukar sem eru í sitthvorum enda bæjarins. Þannig að við gætum í góðri samvinnu unnið þetta töluvert betur en verið er að gera í dag. Það er margt gott að gerast hérna en með tilliti til árangurs og þeirra krakka sem langar að verða afreksmanneskjur í greininni þá væri hægt að gera betur með góðri samvinnu. Alveg eins og var gert í Keflavík í gamla daga, þá var æft í sitthvoru lagi á veturna en keppt saman undir merki ÍBK á sumrin.“

Freyr segist vera á því að setjist menn niður sé hægt að komast að skemmtilegri niðurstöðu og vinna enn betur að þessum málum. Hann heldur að það sé erfitt að byggja upp liðsanda með liði sem er skipað aðkomumönnum og því sé þörf á góðri aðstöðu sem gefur heimafólki tækifæri til að byggja upp hæfa einstaklinga í bænum.

„Það voru strákar að æfa hjá mér í Njarðvík hér áður sem áttu pabba sem voru harðir Keflvíkingar. Sumir pabbarnir áttu mjög erfitt með að klæðast grænu á hliðarlínunni en samglöddust auðvitað með strákunum sínum. Þetta hugarfar þarf að víkja og er sem betur fer víkjandi.“

Freyr hitti þessa á förnum vegi í Rúmeníu þar sem hún var að sækja vatn úr brunni í bænum.

Áður voru menn mikið í fótbolta á sumrin og handbolta eða körfubolta á veturna. Á þessum langa tíma hefur væntanlega margt breyst í þjálfuninni, myndirðu ekki segja það?

„Jú, algerlega. Eins og ég segi, hérna áður fyrr æfði maður sig sjálfur. Maður var meira og minna með boltann og læra tækni sem maður er að kenna krökkunum í dag. Í dag eru fáir sem eru að leika sér heima – og jafnvel ef þeir eru að leika sér með bolta þá kvartar konan í næsta húsi yfir hávaða eða það sé verið að sparka í bílskúrinn hennar. Þetta eru breyttir tímar. Svo auðvitað með tilkomu símanna og talva þá er svo mikil afþreying í boði fyrir krakka og það heillar bara meira. Það er áberandi að krakkarnir sem eru að leika sér úti þeir eru miklu lengra komnir en hinir. Það gefur auga leið, þú verður alltaf betri eftir því sem þú æfir þig meira.“

Þarf að vera ansi margt

„Frá 2016 gerði KSÍ þetta að fullu starfi en ég hafði meiri áhuga á því að starfa innan félaganna en að vera í fullu  starfi hjá KSÍ. Tíminn hjá KSÍ var frábær, að fara í gegnum alla þessa landsleiki og öll sú reynsla sem ég öðlaðist í gegnum starfið. Lífsreynsla eins og þegar ég fór einn með landslið til Kína þar sem við kepptum á Ólympíuleikum og unnum til bronsverðlauna. Þar sem voru fjórtán ára guttar að spila fyrir framan sextán þúsund manns í hverjum leik. Þetta er 2014 og við vorum í þrjár vikur, fjögur þúsund manns í lokuðu þorpi. Þetta voru mini Ólympíuleikar og Kínverjinn kunni svo sannarlega að halda þá. Þetta var stórkostleg upplifun,“ segir Freyr og leggur sérstaka áherslu á „stórkostleg upplifun“.

Freyr hér með bronsmedalíu á Ólympíuleikunum í Kína. Honum fannst það stórkostleg upplifun að taka þátt í mótinu.

Nú endast menn ekki svona lengi í þjálfun nema þeir hafi brennandi áhuga.

„Nei, það er alveg hárrétt. Þarf alveg góðan slatta af þolinmæði og þú þarft að vera geðgóður – og í dag þarftu að vera ansi margt, þú þarft að vera sjúkraþjálfari, læknir, sálfræðingur og það skemmir ekki að vera töframaður eða trúður til að geta spjallað við þessa stráka,“ bætir hann við en Freyr býr yfir leyndum hæfileika. Hann hefur náð góðum árangri sem sjónhverfingamaður og skellir sér stundum í gervi Tralla trúðs sem skemmtir fólki með töfrabrögðum.

„Þjálfunin hefur verið afskaplega gefandi og maður þarf oft að heilsa fólki á förnum vegi sem maður kemur ekki strax fyrir sig. Maður þarf stundum hreinlega að spyrja: „Bíddu, þú ert aftur ...?“ Af því þetta eru orðið mörg þúsund krakkar sem hafa farið í gegn hjá mér. Í dag er ég að þjálfa marga í Keflavík sem ég hef þjálfað mömmur þeirra og pabba – og það styttist í að ég hafi þjálfað afann. Maður fer nú að hugsa sinn gang þegar að því kemur,“ segir Freyr og brosir.

„Í öllu þessu brasi er ég bara ofsalega þakklátur konunni minni, Þórdísi Björgu Ingólfsdóttur. Maður var mikið að heiman en þetta er bara eins og hver önnur vinna. Vinnan hjá KSÍ var svo bara aukavinna ofan á dagvinnuna en í dag er maður bara alsæll heima. Ég er kominn aftur heim í Keflavík.“

Freyr skellti sér ásamt eiginkonu sinni, Þórdísi Björgu Ingólfsdóttur, á fyrsta leik meistaraflokks kvenna hjá Njarðvík sem mætti Grindavík um helgina í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu.

Áttu þér önnur áhugamál eða eru íþróttir það eina sem kemst að?

„Já, íþróttir eru taka mikið pláss í minni fjölskyldu. Við erum þrjú systkinin, ég er elstur og enn að þjálfa, Bylgja systir kemur svo og hún þjálfar körfubolta, svo er Sverrir yngstur, hann er tólf árum yngri en ég og er líka að þjálfa í körfunni. Það snýst allt voða mikið um íþróttir hjá okkur. Tengdasonurinn [Daníel Leó Grétarsson] er atvinnumaður í fótbolta og dóttir okkar, Ásdís Vala, er búin að vera í níu ár með honum úti í útlöndum.

Við eigum þrjú börn; Andri Fannar er afreksmaður í íþróttum, var í landsliðsmaður í körfu og fótbolta, Ásdís varð Íslandsmeistari í körfubolta og Sverrir, minn yngsti, var í íþróttum fram til sextán, sautján ára aldurs en er að mestu hættur því í dag. Einbeitir sér frekar að námi.“

Freyr með þeim Sverri Þór og Bylgju, systkinum sínum, og Ásdísi Kristinsdóttur, móður þeirra, sem fagnaði 79 ára afmæli fyrir skemmstu.

Trúðanef í pósti frá Bandaríkjunum

Freyr segir að hann sé mikið fyrir að ferðast og þau hjónin fari gjarnan í góð ferðalög þegar tekur að hausta.

„Svo hef ég mikinn áhuga á töfrabrögðum og svona almennum fíflagangi. Ég ætlaði alltaf að vera með sýningu og er ekkert búinn að útiloka það, kannski verður hún þegar Freyr verður sextugur. Ég hef núna hálft ár til að henda upp í eitt „show“ – ég get gert svo margt, staðið upp á sviði og sýnt töfrabrögð eða kallað einhverja vitleysu út í salinn. Ég er alveg klár á því að ég gæti fyllt Stapann. Þetta er dýrt ef maður fer í þetta. Það þarf að leigja stapann, fá hljóðmann, hljóðkerfi og allt þar fram eftir götunum. Þetta er bara eitthvað sem ég hef á bak við eyrað,“ segir Freyr en hann hefur lengi lagt stund á sjónhverfingar og brugðið sér í ýmis gervi til að skemmta sér og öðrum.

Hversu lengi hefur þú verið að koma fram sem töframaður eða trúður?

„Ég fékk sendingu frá frænku minni í Bandaríkjunum, dót sem ég bað hana að senda mér. Ég hef verið orðinn eitthvað um 25 ára gamall. Þá voru krakkarnir mínir á leikskóla og ég hafði farið sem jólasveinn á Tjarnarsel og þá fór ég að hugsa. Ég gæti nú gert ýmislegt til að skemmta krökkum, jólasveinar eru bara á ferli í desember en ef ég myndi smella á mig trúðanefi þá gæti ég gert það hvenær sem er. Ég var eitthvað að ræða þetta við pabba og hann sagði að ef ég gerði þetta ekki þá myndi bara einhver annar gera það.

Ég hef alltaf haft þetta algerlega til hliðar við allt annað – en ég get gert þetta og hef voða gaman af því að koma fram og fíflast eitthvað, var síðast bara í síðustu viku að skemmta gamla fólkinu hér í Reykjaneshöllinni. Ég hef gaman af þessu en það sama verður ekki sagt um konuna mína.“

Það skemmir ekki fyrir að geta brugðið sér í gervi Tobba trúðs til að ná til krakkanna.


Hún er ekki spennt fyrir þessu.

„Nei, ég gæti aldrei fengið hana til að vera aðstoðarmanneskja hjá mér á sýningum – ég yrði að fá einhvern annan í það,“ segir Freyr og skellir upp úr.

„Tobbi trúður er búinn að skemmta sjö sinnum í Vestmannaeyjum fyrir fimmtán hundruð til tvö þúsund manns. Ég hef bara verið með hann í skottinu og einu sinni var hringt í mig tvær mínútur í átta, rétt áður en kvöldvaka átti að byrja. Þá var það framkvæmdastjóri mótsins, Einar Friðþjófsson, sem sagði: „Freyr, þú verður að bjarga okkur. Það eru fimmtán hundruð krakkar hérna, troðfull höll, og Skari skrípó kemst ekki, það er ófært frá Bakka.“

Þá voru góð ráð dýr og ég fór bara inn í skúr hjá Jóni Óla [Daníelssyni], vini mínum í Vestmannaeyjum, og náði í hamar og sög, tíndi til einhverjar flöskur og dót sem ég hélt á lofti við dúndrandi músík niðr’í íþróttahúsi. Ég var eins og rokkstjarna, þeir hlupu allir á eftir mér þannig að ég bjargaði þessu kvöldi. Ég man alltaf að Einar sagði: „Þú bara verður að gera þetta, þú færð bara borgaði eins og þú vilt. Þú verður að redda þessu.“ Ég hafði kannski fimm mínútur og Jón Óli bjó þarna rétt hjá. Í kjölfarið á því tók ég svo nokkrar skemmtanir þarna.“

Jón Óla ættu margir að þekkja en hann hefur fengist við þjálfun lengi og var t.a.m. með kvennalið Grindavíkur á síðasta ári. Freyr segir hann einn af sínum bestu vinum en þeir ólust upp í Eyjabyggðinni í Keflavík.

„Við höfum verið saman í Íslenska knattspyrnuskólanum á Spáni. Ég gleymdi minnast á það að ég er með knattspyrnuskóla á Spáni, búinn að vera með í átta ár. Þar er alltaf uppselt en við erum á fjögurra stjörnu hóteli á San Pinatar og förum með fjórtán og fimmtán ára krakka yfir verslunarmannahelgi, bæði stelpur og stráka. Þar æfum við tvisvar á dag, allir fá sér búning, sem er hluti af námskeiðinu, og þessi skóli hefur skilað mjög góðum árangri. Við erum að fara aftur í sumar.“

Hefur þú alltaf verið að sinna þjálfun á bæði stelpum og strákum?

„Ég sinnti stelpum miklu meira í byrjun. Við vorum með afreksstelpur eins og Olgu Færseth sem var lengi hjá mér í fótboltanum. Hún er einn af mínum uppáhaldsnemendum, alveg frábær. Ásdís Þorgeirsdóttir var líka hjá mér, Íslandsmeistari hjá mér í handbolta og fótbolta, og fleiri. Ég get lengi upp talið þær stelpur sem ég hef þjálfað.

Það þarf aðeins aðra nálgun á þjálfun stelpna. Ég var aðeins með meistaraflokk í byrjun ferilsins en síðustu ár var ég aðeins að hjálpa Gunnari Jóns með tækniæfingar yfir veturinn. Var svona á bak við tjöldin, tók bara æfingar fyrir hann og hafði gaman af því. Það skiptir svo sem engu máli hvort maður er að þjálfa stráka eða stelpur. Manni þykir vænt um alla, alla sem eru að æfa hjá manni. Það er sama hvort þú ert nýbyrjaður eða ekki, að geta hjálpað þér að verða betri manneskju. Það skiptir mig miklu meira máli og hefur bjargað mér í þjálfun að koma vel fram við alla og hvetja þá áfram fyrir lífið. Ef þú mætir vel á æfingar þá uppskerðu eitthvað. Þú getur ekki uppskorið ef þú mætir illa, það sama á við um vinnu. Ef þú mætir illa í vinnu þá fær vinnuveitandinn bara annan mann. Þess vegna skipta íþróttir máli, að leiðbeinandinn hjálpi þeim að læra að vinna í hóp, taki tillit og allt þetta sem fylgir því að vera í íþróttum. Það skiptir rosalega miklu máli og undirbýr börnin fyrir lífið.“

„Það skiptir svo sem engu máli hvort maður er að þjálfa stráka eða stelpur. Manni þykir vænt um alla, alla sem eru að æfa hjá manni.“

Foreldravandamál

Finnst þér samskiptin innan hópsins hafa breyst mikið í seinni tíð, með tilkomu samfélagsmiðla og alls þess áreitis sem þeim fylgir? Eru krakkarnir eins nánir og áður?

„Sko það sem hefur breyst í Keflavík og Njarðvík er að það var bara einn grunnskóli á hvorum stað. Þá þekktust allir, allir voru vinir og jafnvel saman í bekk. Í dag ertu með marga skóla og hópurinn kemur kannski úr þremur, jafnvel fjórum skólum. 

Ég varð mjög var við þetta hjá Haukum. Það víkkaði sjóndeildarhringinn hjá manni að fara út úr bænum og sjá hvernig þetta er annarsstaðar. Ég hélt alltaf að öll dýrin í skóginum væru vinir en þar voru krakkarnir kannski að koma úr fimm, sex skólum og þá skiptir máli að þjálfarinn tengi þetta allt saman með því að gera eitthvað fyrir utan hefðbundnar æfingar.

Í tuttugu ár hef ég farið í Vogana, leigt íþróttahúsið og farið með krakkana þangað í eina nótt. Það eru margir sem minnast þess sem eitt af því skemmtilegasta sem þau muna eftir. Það er ekki einhver sigur á Blikum eða eitthvað þannig sem er eftirminnilegast heldur svona hópefli.“

Fjölgun iðkenda og dreifðari hópar er það sem hefur breyst mikið að sögn Freys og eðlilega verður þá einhver hópamyndun á æfingum. Í dag er Freyr annar tveggja yfirþjálfara yngri flokka Keflavíkur og hann segist líta frekar á sig sem mentor fyrir hina þjálfarana.

„Ég fylgist með því sem þeir eru að gera og læt þá setja þetta upp. Svo skýt ég að þeim einhverjum athugasemdum þegar ég sé eitthvað sem væri hægt að gera betur, svo hrósa ég þeim þegar þeir gera vel. Ég hef náttúrlega lent í öllum andskotanum, nefndu það bara. Ég hef örugglega lent í því. Foreldrar eru stórt vandamál í dag. Það er afskiptasemi af hinu og þessu sem að þeim kemur raunverulega ekkert við. Þessi frábæra grein sem birtist um daginn, í sambandi við HK-málið. Það var góð lesning fyrir nánast alla. Hrikalega sorgleg lesning en svona er þetta. Þetta þekkir maður,“ sagði Freyr að lokum en tengill á greinina er hér að neðan.