Þróttur tapaði í vítaspyrnukeppni
sæti í 3. deild tryggt engu að síður
Þróttur Vogum varð að gera sér annað sætið í 4. deild karla að góðu þetta árið en liðið tapaði fyrir Vængjum Júpíters í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í gær á Vogabæjarvelli.
Það var margt um manninn í Vogunum og ljóst að Vogamenn eru hæstánægðir með að Þrótttarar höfðu tryggt sér sæti í 3. deild að ári með því að leggja ÍH fyrr í vikunni. Veðrið var með ágætum og aðstæður kjörnar fyrir knattspyrnuiðkun.
Þróttarar skoruðu fyrsta mark leiksins og var þar að verki Andri Gíslason rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og ætlaði allt um koll að keyra á pöllunum. Liðin gengu til búningsherbergja með aðeins þetta eina mark á stigatöflunni og Þróttur í góðum málum.
Hart var barist í síðari hálfleik þar sem að Vængir Júpíters reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og tókst það átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma þegar Atli Hjaltested kom boltanum í mark heimamanna og varð því að framlengja leikinn. Ekkert var skorað í 30 mínútum framlengingar en Hafþór Ægir Vilhjálmsson fékk að líta rauða spjaldið í liði Þróttar aðeins tveimur mínútum fyrir lok framlengingar.
Vítaspyrnukeppnin var stál í stál og það var ekki fyrr en í fimmtu spyrnu heimamanna sem að Haukur Hinriksson lét verja frá sér. Vængir Júpíters skoruðu aftur á móti úr síðustu spyrnu sinni og tryggðu sér því titilinn.
Sem áður segir fara bæði lið uppúr 4. deild karla en Þróttarar töpuðu aðeins tveimur leikjum í allt sumar sem verður að þykja nokkuð glæsilegur árangur.