Þróttur gerði jafntefli á Bessastöðum
Þróttur Vogum gerði 2-2 jafntefli gegn Álftanesi á Bessastaðavelli í gær í 4. deild karla. Þróttarar mættu mun ákveðnari til leiks og náðu að skora strax á 8. mínútu þegar rangstöðugildra heimamanna brást og fyrirliði Þróttara Reynir Þór Valsson skoraði eftir að hafa leikið á Odd markmann Álftanes í markinu. Oddur spilaði með Þrótti í fyrra. Afar slysalegt mark. Eftir þetta tóku Álftanes yfirhöndina á vellinum og tók þá ekki nema 8 mínútur að jafna metinn en það mark skoraði Guðbjörn Alexander Sæmundsson.
Álftanes héldu áfram að sækja stíft á Þróttarana sem vörðust vel og beyttu hættulegum skyndisóknum. Þróttarar voru hársbreidd frá því að komast yfir þegar skalli frá Eysteini Sindra hafnaði í stönginni hjá heimamönnum og rúllaði meðfram marklínunni þar sem heimamenn náðu að bjarga.
Álftanes héldu áfram og uppskáru mark eftir góða sókn og var þar að verki Fannar Eðvaldsson sem skoraði mark í stöngina og inn og forystan 2-1 fyrir Álftanes í hálfleik.
Í síðari hálfleik byrjuðu Álftanes betur og voru meira með boltann til að byrja með. Þróttarar fóru að sækja mjög stíft seinustu tuttugu mínuturnar og tóku öll völd á vellinum. Það gat varla annað en endað með marki sem það gerði þegar markvörður Álftanes missti afar klaufalega boltann beint fyrir fæturnar á Magnúsi Ólafssyni sem skoraði í autt markið hjá heimamönnum. Þetta kveikti heldur betur í stuðningsmönnum. Nokkrum mínútum seinna áttu Þróttarar að fá víti þegar Magnús var feldur í vítateignum.
Seinustu tíu mínúturnar sóttu Þróttar afar stíft og mega Álftnesingar þakka fyrir að hafa ekki fengið mark á á sig á lokamínútunum en þegar á heildina á litið er jafntefli sanngjörn niðurstaða. Gaman var að sjá hvað mikið af áhorfendum lögðu leið sína á völlinn og settu mikinn svip sinn á leikinn, stuðningsmenn Þróttar voru afar líflegir og létu vel í sér heyra. Bæði lið eru í bullandi séns á að komast í úrslitakeppnina og verður áhugavert að sjá hvernig seinni umferðin þróast. Þróttur endar þvi fyrri umferð í þriðja sæti , einu stigum á eftir KFS og fimm stigum á eftir KFG. Næsti leikur Þróttara verður 10. júlí á móti Stokkseyri á útivelli.
Eftir sjö umferðir er Þróttur í þriðja sæti A-riðils 4. deildar karla. Liðið hefur hlotið 14 stig og er fimm stigum á eftir KFG sem situr á toppi A-riðils. Næsti leikur Þróttar Vogum er gegn Stokkseyri á útivelli þann 10. júlí.