Þróttur fjarlægist efstu lið
Þróttur tapaði um helgina fyrir KFA í annarri deild karla í knattspyrnu en fyrir leikinn munaði þremur stigum á liðunum í þriðja og fjórða sæti. Þróttur situr því áfram í fjórða sæti en bilið í næstu lið lengdist og Völsungur færðist upp að hlið Þróttar með nítján stig en lakara markahlutfall.
Mínútu þögn var fyrir leik og Þróttarar léku með sorgarbönd til að minnast Reynis Brynjólfssonar sem lést síðasta þriðjudag, níræður að aldri, en hann var einn af traustustu stuðningamönnum Þróttar og með bestu mætinguna á heimaleiki meistaraflokks í knattspyrnu frá upphafi.
Reynir sem missti aldrei af heimaleik var sæmdur gullmerki UMFÞ fyrr á þessu ári.
Þróttur - KFA 2:3
Gestirnir skoruðu tvívegis í fyrri hálfleik (22’ og 45’+3) og bættu þriðja markinu við snemma í þeim síðari (52’).
Þróttarar rifu sig þá loks í gang og Haukur Darri Pálsson minnkaði muninn (73’).
Sex mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma bætti Eiður Baldvin Baldvinsson við öðru marki Þróttar (84’) en lengra komust heimamenn ekki.