Þróttur fagnaði sigri á toppliðinu
Þróttur Vogum mætti Kórdrengjum, toppliði 2. deildar, á Vogaídýfuvellinum í dag. Fyrir leikinn munaði sex stigum á liðunum í fyrsta og öðru sæti en það voru Þróttarar sem fögnuðu vel og innilega góðum 1:0 sigri að leikslokum.
Bæði lið mættu á völlinn með það í huga að tapa ekki og það var ekkert gefið eftir. Fyrri hálfleikur var markalaust en talsverð harka í leiknum.
Í seinni hálfleik dró til tíðinda þegar Þróttarar fengu hornspyrnu, vel heppnuð spyrnan barst inn í teiginn og hitti kollinn á Andra Jónassyni sem stangaði hann í markið (57') og Þróttur komið yfir 1:0.
Næstu mínútur skiptust liðin á að sækja og Andri komst í dauðafæri á 78. mínútu en Kórdrengir björguðu þá á línu.
Kórdrengir settu aukna pressu í sóknina eftir því sem leið á seinni hálfleik en Þróttarar þéttu vörnina, beittu öguðum varnarleik og hleyptu gestunum ekki í færi heldur voru staðfastir í að halda fengnum hlut – sem tókst því ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum.
Það var mikill hamagangur á síðustu mínútum leiksins og fékk einn leikmanna Kórdrengja að líta rauða spjaldið á 5. mínútu uppbótartíma, þá fengu þjálfarar beggja liða gult enda var hiti kominn í mannskapinn.
Með sigrinum minnka Þróttarar muninn í þrjú stig á toppi deildarinnar og eru jafnir Selfyssingum en með mun betri markatölu.
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem sýnir fögnuð Þróttara að leikslokum og þá tók ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi Bárðarson, meðfylgjandi myndir.