Þrótti í Vogum dæmdur sigur
Þróttur í Vogum, sem leikur í 2. deild karla í körfuknattleik, er í vænlegri stöðu í sínum riðli eftir úrskurð dómstóls KKÍ frá því í gær. Þar var þeim dæmdur sigur í leik gegn aðalkeppinautum sínum, B-liði Ármanns/Þróttar, sem fór fram fyrir um tveimur vikum og lauk upphaflega með sigri hinna síðarnefndu. Síðar kom í ljós að þeir höfðu notað of marga A-liðs menn og var Þrótti V. því dæmdur sigur 20-0.
Því eru liðin tvö, auk ÍR B, jöfn að stigum í öðru sæti riðilsins á eftir HK, en Þróttur V. á sínu auðveldari leiki eftir en hin liðin tvö og gæti tryggt sér annað sætið. Árangur liðsins er athyglisverður vegna þess að þetta er fyrsta árið sem körfuknattleiksliði er teflt fram í Vogum, en mikil vakning hefur verið í körfuboltaiðkun þar í vetur.
Þá má einnig geta þess að Reynir frá Sandgerði er einnig í öðru sæti síns riðils í sömu deild og hafa staðið sig með miklum ágætum eftir að ákveðið var að byggja liðið upp að nýju með heimamönnum.