Þróttarar unnu Kára og sitja í fjórða sæti
Þróttur úr Vogum lék gegn Kára á Akranesi í gærkvöld. Fyrir leikinn var Þróttur í fimmta sæti 2. deildar karla í knattspyrnu.
Það var Viktor Smári Segatta sem skoraði opnunarmark Þróttara á 10. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu Þróttarar vítaspyrnu sem Alexsander Helgason skoraði úr og tvöfaldaði forystu þeirra.
Kári klóraði í bakkann á 65. mínútu og minnkaði muninn í eitt mark en þar við sat og 2:1 sigur Þróttar í höfn.