Þróttarar töpuðu stórt í toppslag og Víðismenn komnir í fallbaráttu
Afturelding náði í gærkvöld fimm stiga forskoti á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu með því að vinna stórsigur á Þrótti úr Vogum á útivelli, 6:1, í uppgjöri tveggja efstu liðanna.
Afturelding komst í 3:0 fyrir hlé og var komin í 5:0 þegar fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Alexander Aron Davorsson og Hafliði Sigurðarson gerðu tvö mörk hvor fyrir Aftureldingu, Jason Daði Svanþórsson og Jökull Jörvar Þórhallsson eitt hvor áður en Þróttarar komust á blað með sjálfsmarki Mosfellinga.
Þróttur úr Vogum er með 18 stig í öðru sæti deildarinnar fimm stigum á eftir Aftureldingu, Völsungur með 17 stig í þriðja sætinu.
Grótta sigraði Víði 4:2. Óliver Dagur Thorlacius skoraði tvö mörk fyrir Gróttu, Ásgrímur Gunnarsson og Kristófer Orri Pétursson eitt hvor, en Andri Gíslason gerði bæði mörk Víðis sem er með 6 stig í 10. sætinu.
Víðismönnum hefur ekki gengið vel í sumar.