Þróttarar töpuðu á dramatískan hátt og Víðir með sannfærandi sigur
Þróttarar úr Vogum töpuðu á dramatískan hátt 3:1- fyrir Kára á útivelli í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Staðan var 1:0, Þrótti í vil, fram að 79. mínútu, en Kári skoraði þrjú mörk í lokin og tryggði sér sigurinn.
Ragnar Þór Gunnarsson kom Þrótti yfir á 58. mínútu en Alexander Már Þórláksson jafnaði á 79. mínútu. Andri Júlíusson kom Kára yfir úr vítaspyrnu í uppbótartíma og Róbert Ísak Erlingsson innsiglaði 3:1-sigur á þriðju mínútu uppbótartímans. Þróttarar voru ekki sáttir með störf dómarans og mótmæltu harðlega vítaspyrnudómnum í uppbótartímanum.
Víðir vann 2:0-heimasigur á Tindastóli í Garði. Fyrsta mark leiksins kom á 25. mínútu og var sjálfsmark og Mahdi Hadraoui tryggði Víði 2:0 sigur með marki úr víti á 77. mínútu og þar við sat. Var sigur Víðismanna sannfærandi.