Þróttarar taplausir á tímabilinu
Þróttur Vogum tryggði sér sæti í næstefstu deild í körfuknattleik karla þegar þeir lögðu Leikni Reykjavík að velli í undanúrslitum 2. deildar um síðustu helgi. Nú er aðeins eftir úrslitaviðureign við Snæfell þar sem fyrra liðið til að vinna tvo leiki verður deildarmeistari.
Sigurganga Þróttar hefur verið ótrúleg á tímabilinu en liðið hefur unnið alla sína leiki í deild og úrslitum. Víkurfréttir ræddu við fyrirliða liðsins, Arnór Inga Ingvason, eftir leik en hann er einn af stofnfélögum deildarinnar sem er á sínu þriðja ári.
Til hamingju Arnór, þetta er eiginlega búið að vera hlægilega auðvelt tímabil hjá ykkur.
„Já, að vissu leyti – en það voru fjölmargir leikir sem voru virkilega erfiðir og við rétt unnum. Við vissum samt að við myndum klára leikina og kláruðum þá marga á lokasekúndunum eiginlega.
Það er einn leikur eftir, úrslitaleikurinn. Við erum búnir að tryggja okkur upp og það er auðvitað geggjað en við ætlum að taka dolluna líka.“
Nú hefur þú verið viðloðandi þessa deild frá fyrsta degi og þetta hefur þróast mjög vel hjá ykkur.
„Já, framar vonum. Við byrjuðum hérna til að hafa gaman í fyrsta lagi. Síðan fengum við alltaf fleiri og betri stráka inn í liðið. Stráka með reynslu í efstu deild og í byrjun tímabils vorum við bara komnir með geggjað lið og settum stefnuna beint upp.“
Arnór segir að meginmarkmiðið núna sé að festa Þrótt í sessi í 1. deild en það sé mikil vöntun á 1. deildarliði á Suðurnesjum. Þróttur hefur verið að nota menn eins og Magnús Pétursson úr úrvalsdeildarliði Keflavíkur sem hefur verið á venslasamningi til að fá fleiri mínútur og leikreynslu.
Keflvíkingar stofna deild í Vogum
Arnór og félagar hans voru með fasta tíma í Vogabæjarhöllinni þar sem þeir voru að leika sér í körfubolta. Eftir að Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, viðraði þá hugmynd við þá þess efnis að stofna deild ruku strákarnir til, stofnuðu körfuknattleiksdeild og strax á fyrsta ári unnu þeir 3. deildina.
„Ég var á haus í þessu í byrjun. Tók þátt í að stofna deildina, var leikmaður og þjálfaði líka fyrsta árið. Svo þegar við fórum upp í 2. deild fékk ég Mumma frænda [Guðmund Inga Skúlason] til að taka við þjálfun liðsins.“
Þið eruð nú ekki úr Vogunum, er það?
„Nei, ég er uppalinn Keflvíkingur og spilaði fótbolta og körfu með þeim í gegnum alla yngri flokkana. Þegar ég var í áttunda, níunda bekk flutti ég mig alveg yfir í körfuna,“ segir Arnór.
Hvað er svo framundan hjá Þrótti?
„Nú er bara að einbeita sér að úrslitaleikjunum við Snæfell og svo er það 1. deildin. Ætli stjórn og þjálfari þurfi ekki eitthvað að setjast niður og plana? Það þarf líklega að styrkja liðið eitthvað fyrir næsta tímabil og þess háttar,“ sagði sigurreifur fyrirliðinn að lokum.