Þróttarar styrkja hópinn
Markvörðurinn Rúnar Gissurarson hefur gengið til liðs við Þrótt Vogum frá Keflavík en Rúnar lék með Þrótturum sumarið 2010. Rúnar skrifar undir samning út keppnistímabilið 2023/2024.
Rúnar hefur leikið með Keflavík, Reyni Sandgerði, Víði Garði og Njarðvík á sínum ferli og er með töluverða reynslu. Rúnar mun veita Þórhalli aukna samkeppni um markmannsstöðuna og kemur með miklu fleira inn í Þróttarafjölskylduna
Þróttarar sitja nú um miðja 2. deild en þeir eru aðeins sjö stigum frá efsta sæti deildarinnar (og eiga leik til góða). Þeir hafa nýtt félagsskiptagluggann vel en á vef KSÍ kemur fram að sex nýir leikmenn hafa bæst í leikmannahóp Þróttar á síðustu dögum. Þeir eru auk Rúnars; Birkir Þór Guðmundsson (frá Noregi), Björgvin Stefánsson (frá Haukum), Jóhannes Karl Bárðarson (á láni frá Víkingi Reykjavík), Valdimar Ingi Jónsson (frá ÍR) og Þorgeir Ingvarsson (frá Ægi).
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, hefur sagt að stefnan í Vogum sé að byggja sterkt lið til framtíðar og sérstaka athygli vekur að enginn útlendingur er í röðum Þróttar á þessu tímabili.