Þróttarar slegnir út úr SS-bikarnum
Þróttur úr Vogum laut í gras gegn ÍR í 16-liða úrslitum SS-bikars karla í handknattleik í kvöld. Leikurinn, sem fór fram í Íþróttahúsinu í Garði, endaði 15-35 fyrir ÍR.
Óhætt er að segja að ekki hafi mikil spenna ríkt um úrslitin, áhorfendur létu það ekki stöðva sig heldur mættu vel og studdu sína menn. Lið Þróttara er samansett af hópi áhugamanna sem byrjuðu að æfa í haust. Þeir slógu ÍBV-2 óvænt úr í fyrstu umferð bikarkeppninnar með 21-20 sigri á útivelli.
Sigurður Sveinsson, stórskytta með meiru, var fenginn til að stýra liði Vogamanna en var rekinn í leikslok. „Okkur þótti árangurinn alls ekki viðunandi,“ sagði Örvar Kristjánsson, leikmaður Þróttar í gamni að leik loknum. „Þá hafa ÍR-ingar greinilega verið búnir að kortleggja mig sérstaklega því ég gerði 8 mörk í fyrsta leiknum en bara eitt í kvöld.“
Þróttarar áttu vitaskuld ekki möguleika á sigri gegn sterku liði ÍR en leikgleðin skein engu að síður í gegn í leiknum. „Við komum inn í þennan leik til að hafa gaman af honum og gerðum það,“ sagði Örvar að lokum. „Nú erum við komnir í sumarfrí en förum aftur í gang í september.“
Engilbert Jósepsson (mynd) var markahæstur Vogamanna með 8 mörk, Marteinn Ægisson gerði 2 en aðrir færri.
VF-mynd/Þorgils Jónsson