Þróttarar leita eftirmanns Brynjars
-Sagði upp störfum
Í tilkynningu frá knattspyrnufélaginu Þrótti Vogum kemur fram að Brynjar Þór Gestsson, þjálfari karlaliðsins í knattspyrnu hefur sagt upp sem þjálfari liðsins. Brynjar var einnig yfirþjálfari barna og unglingastarfs Þróttar.
„Það er samdóma álit stjórnar UMFÞ og Knattspyrnudeildar UMFÞ að Brynjar hafi sinnt starfi sínu vel og samstarf við hann innan félags verið til mikillar fyrirmyndar. Þróttur Vogum kann honum miklar þakkir fyrir sitt framlag til knattspyrnunnar í Vogum og óskar honum og hans fjölskyldu alls hins besta í framtíðinni.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningunni.
Þróttur komst upp í aðra deildina í sumar í fyrsta sinn í sögu félagsins en félagið fagnar 85 ára afmæli í haust.
„Stjórn knattspyrnudeildar ætlar að leggja áherslu á að halda þeim leikmönnum sem fyrir eru hjá félaginu og hefur framkvæmdastjóra Þróttar verið falið að leita eftirmanns Brynjars og mun sú vinna hefjast á næstu dögum.“
Fyrir hönd Þróttar, Baldvin Hróar formaður UMFÞ og Friðrik V. formaður knd. UMFÞ.