Þróttarar í úrslitakeppnina
Verður Þróttur með úrvalsdeildarlið í körfunni á næsta ári?
Þróttarar náðu þeim magnaða árangri að komast í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik á sínu fyrsta ári í næstefstu deild.
Þróttur hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar og voru lengi vel í toppbaráttu. Þróttarar mæta Sindra, liðinu í fjórða sæti, á útivelli í fyrsta leik úrslitakeppninnar. Annar leikur liðanna verður leikinn 8. apríl og fer þá fram á heimavelli Þróttar (sem leikur heimaleiki sína í Sandgerði) og segja Þróttarar að þar verði engu til sparað.
Árangur Þróttar verður að teljast frábær en Þróttur er á sínu fyrsta ári í næstefstu deild. Körfuknattleiksdeild Þróttar hefur minna fjármagn á milli handanna en önnur lið í deildinni og er eina liðið í deildinni sem hefur ekki útlending innan sinna raða.