Þróttarar fóru illa að ráði sínu - Reynismenn sigla lygnan sjó
Voga Þróttarar fóru illa að ráði sínu þegar þeir gátu skotist upp í 3. sæti 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar þeir töpuðu fyrir Vestra á heimavelli í gær.
Alexander Helgason og Gilles Ondo komu Þrótti í 2:0 í fyrri hálfleik en snemma í seinni hálfleik fékk Ólafur Hrannar Kristjánsson sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Vestramenn nýttu sér heldur betur liðsmuninn. Þórður Gunnar Hafþórsson minnkaði muninn á 72. mínútu og Alexander Helgason skoraði sjálfsmark á 85. mínútu. Vestri var ekki hættur því Aaron Spear skoraði sigurmark í blálokin. Þróttarar sem gátu farið í þriðja sæti með sigri sitja í áttunda sæti.
Sandgerðingar eru í ágætum málum í 3. deildinni en þeir sigruðu Vængi Júpiters sl. föstudag á útivelli 0:1. Þeir eru í 5. sæti deildarinnar með 26 stig.