Þróttarar byrja með látum
Stórsigur á Erninum á Vogabæjarvelli í dag
Þróttur Vogum hóf leiktímabilið í 4. deild karla í dag með því að gjörsigra Örninn 7-1 á Vogabæjarvelli.
Þróttarar, sem hafa verið að spila vel á undirbúningstímabilinu, buðu uppá markasúpu á heimavelli í dag þegar Örninn mætti í heimsókn. Páll Guðmundsson og Einar Helgi Helgason skoruðu fyrstu tvö mörk liðsins áður en Örninn skoraði sjálfsmark á lokamínútum fyrri hálfleiks. Staðan var því 3-0 í hálfleik og ljóst í hvað stefndi.
Veislan hélt áfram í síðari hálfleik en það voru þó gestirnir sem voru fyrri til að skora þegar Ingvar Gylfason minnkaði muninn í 3-1 á 58. mínútu. Páll Guðmundsson skoraði annað mark sitt á 65. mínútu og Kristján Steinn Magnússon kom Þrótturum í 5-1 á þeirri 88. Það var svo varamaðurinn Magnús Ólafsson sem skoraði tvívegis í uppbótartíma til að setja punktinn tryggilega yfir i-ið. Lokatölur urðu því 7-1 fyrir heimamenn sem sendu skýr skilaboð með sigrinum í dag.
Þróttarar leika næst gegn liði Stál-Úlfs fimmtudaginn 28. maí á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi.