Þröstur og Snæbjörn bestir í fjórða haustmótinu í Leirunni
Þröstur Ástþórsson sigraði aðra helgina í röð á október mótaröð Golfklúbbs Suðurnesja en hann lék á 72 höggum eða pari í Leirunni í gær. Annar GS félagi, Snæbjörn Guðni Valtýsson var bestur í punktakeppninni en hann fékk 41 punkt.
Leiran er enn í fínu formi þó svo græni liturinn sé farinn að dofna en það er gaman að sjá svona flottan hring hjá Þresti sem vann annað mótið í röð en hann er núna lang efstur í stigakeppninni án forgjafar. Róbert Björnsson úr GKB var annar á 74 höggum og þriðji var Björn Halldórsson úr GÁ. Í forgjafarkeppninni var hörkuskor líka, í 2.-3. sæti voru Snorri Gestsson úr GS og Þorleifur Gestsson úr GKG.
Eitthundrað og fjórir keppendur léku í þessu fjórða móti GS og PRO Golf í dag. Ræst var út kl.10.30, allir á sama tíma. Fimmta og síðasta mótið verður næsta laugardag 31. okt.
Veðrið hefur verið mjög gott í öllum mótunum þó eitthvað hafi blotnað um síðustu helgi. Þetta er þriðja árið í röð sem Leiran er með opið á sumarflatir yfir sex mánuði á ári og nú stefnir í nýtt met því reynt verður að hafa opið í allan vetur, alla vega á hluta af flötunum.