Þröstur keppti á sterku sundmóti
Þröstur Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í sundi og sundmaður ÍRB í Reykjanesbæ, keppti á Meistaramóti NCAA í sundi þann 14-17 mars sl. Þröstur æfir og syndir með McKendree University í Illinois en þar stundar hann nám í tölvunarfræði en skólinn hans keppti meðal háskóla í annari deild á mótinu. Á mótið mæta yfir 350 sundmenn og 35 lið etja kappi.
Þröstur náði lágmörkum í þremur einstaklingsgreinum 500y, 1000y og 1650y skriðsundi ásamt að synda í boðsundsveit skólans í 200y, 400y og 800y skriðsundi.
Hann varð áttundi í 1650y skriðsundi og komst á verðlaunapall. Þá varð hann níundi í 1000y skriðsundi og 16. í 500y skriðsundi. Í hverri grein eru á milli 30 og 40 bestu sundmenn frá skólum alls staðar frá í Bandaríkjunum.
Boðsundsveit McKendree skólans varð svo fjórða sæti í 800y skriðsundi og 12. í 400y skriðsundi. Þessi árangur liðsins skilaði karlaliði skólans í 15. sæti á mótinu en þetta er eingöngu annað árið sem skólinn er með sundlið á þessu móti. Í fyrra var skólinn í 25. sæti.
A-sveit McKendree háskólans. Frá vinstri: Luca Simonetti frá Ítalíu, Alexander Skinner frá Suður-Afríku, Matja Pucarevic frá Serbíu og Þröstur Bjarnason.