Þröstur ákveðinn í því að vinna Keflvíkinga
Körfuknattleiksmaðurinn Þröstur Leó Jóhannsson er í óvenjulegum aðstæðum þessa dagana. Hann leikur með liði Tindastóls og mun mæta æskufélagi sínu, Keflavík í Laugardalshöllinni á morgun. Þröstur hefur ekki leikið til bikarúrslita áður en hann er spenntur fyrir því að mæta sínum gömlu félögum í úrslitum.
„Ég er búinn að koma mér vel fyrir og hér er mjög gott að búa. Hér er gott fólk og það er mikil eining hérna á Sauðárkróki,“ segir Þröstur en hann segir það meira sýnilegt núna eftir að ljóst var að Tindastóll væri á leið í bikarúrslitin. „Daginn eftir undanúrslitaleikinn þá var ekkert annað á vörum bæjarbúa en árangur körfuboltaliðsins. Þetta er stór áfangi sem við vorum að ná.“ Þröstur lék eins og áður segir upp alla yngri flokka með Keflvíkingum og síðar með meistaraflokki. Hann fór með meistaraflokki Keflvíkinga í Laugardalshöll í eitt skipti en þá lék liðið til úrslita um fyrirtækjabikarinn.
Hvernig tilfinning er það að mæta Keflvíkingum þegar þú kemst loks í bikarúrslitin?
„Það er mjög sérstakt. Fyrst þegar ég spilaði á móti Keflvíkingum í Toyota-höllinni í vetur þá var það mjög kjánalegt og það var einhvern veginn ekki búið að setjast inn hjá mér. Núna er ég hins vegar búinn að tapa tvisvar illa á móti þeim og ég gæti ekki verið meira ákveðinn í því að vinna Keflvíkinga á laugardaginn,“ segir Þröstur. „Við höfum ekki verið að spila neitt gríðarlega vel undanfarið þrátt fyrir að sigra ÍR í síðasta leik en við höfum samt jafnt og þétt verið að bæta okkur. Við erum brattir og við viljum sanna það að þetta sé ekki bara einhver stemning hjá okkur eða að við séum spútnik lið. Við viljum sanna að við eigum skilið að vera í úrslitum í bikarkeppninni.“
Hvernig er þetta tímabil búið að vera hjá þér persónulega?
„Það hefur gengið þokkalega. Ég byrjaði tímabilið á því að skipta um stöðu. Ég var að leika í stöðu kraftframherja en færði mig í stöðu minni framherjans. Það tók tíma að venjast því og það gekk ekkert æðislega vel. En eftir að við misstum einn af stóru mönnunum okkar þá fór ég í gömlu stöðuna mína og þar hefur mér gengið vel, “ segir Þröstur en hann segir það vera verkefni næsta sumars að venjast nýrri stöðu.
Þröstur vildi koma því áleiðis til Keflvíkinga að Skagfirðingar ætli sér að fjölmenna á leikinn og því væri þeim hollast að gera slíkt hið sama. Hann vonast til þess að það verði góð stemning og leikurinn verði hin mesta skemmtun.